Þessa dagana standa yfir stífar æfingar á Ubba kóngi, en verkið verður sýnt í næstu viku á hinni virtu alþjóðlegu leiklistarhátíð Mondial du Théâtre í Mónakó.
Leikfélag Hafnarfjarðar frumsýndi Ubba kóng eftir Alfred Jarry í leikstjórn Ágústu Skúladóttur vorið 2015. Farið var með verkið á leiklistarhátíð í Austurríki í fyrra og nú leggur Ubbi enn á ný upp í langferð.
Mondial du Théâtre er haldin í Mónakó fjórða hvert ár á vegum AITA/IATA, International Association of Amateur Theatre, og Studio de Monaco. 24 leikhópum er boðið að taka þátt hverju sinni og sýnir hver leikhópur tvisvar sinnum. Sýningar LH á Ubba kóngi verða dagana 29. og 30. ágúst í Théâtre Princesse Grace.
Leikfélagið er afar stolt af því að hafa verið valið til þátttöku á fremstu leiklistarhátíð heims á vettvangi áhugaleikhúss og er spennan í leikhópnum orðin mikil. Leikarar eru 10 alls, tónlistin í verkinu er eftir Eyvind Karlsson og textar eftir Karl Ágúst Úlfsson og Þórarin Eldjárn. Steingrímur Gautur Kristjánsson þýddi.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Guðlaugu Björk Eiríksdóttur, leikkonu og slagverksleikara, sultuslaka í pásu.