Leikdeild Skallagríms hefur upp á síðkastið æft af fullum krafti leikritið Skugga-Svein eftir Matthías Jochumsson í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Leikdeildin setur Skugga-Svein upp en það var síðast gert árið 1948 og fannst fólki kominn tími á að setja þetta vinsæla leikverk upp aftur. Skugga-Sveinn verður í þetta sinn settur upp í félagsheimilinu Lyngbrekku á Mýrum og verður frumsýning þann sjötta janúar 2012.

Það vill líka svo skemmtilega til að um þær mundir sem leikritið verður frumsýnt í Lyngbrekku eru 150 ár síðan það var fyrst sett á fjalirnar en þá var það sýnt í Gildaskálanum við Kirkjustræti 2 í Reykjavík. Leikstjóraval var ekki erfitt því Rúnar Guðbrandsson er að leikstýra leikhópnum fimmtu uppsetninguna í röð og þekkir því orðið nánast hverja manneskju innan hans ansi vel. Þar sem samvinna við hann hefur gengið mjög vel og mikil ánægja hefur verið með útkomur síðustu ára voru allir sammála um að lang best væri að fá hann aftur til samstarfs við Leikdeildina.

Leikhópurinn kemur hvaðanæva að úr Borgarbyggð, enda sautján manns sem standa á sviði í þessari uppfærslu. Sú sem kemur lengst að keyrir um 40 km til þess eins að vinna með þessum frábæra leikhóp og er hún nú að leika með Leikdeild Skallagríms fjórða árið í röð, þrátt fyrir að búa þetta langt í burtu.  Flestir sem leika að þessu sinni koma þó ekki svona langt að og má þar helst nefna átta manns úr sömu fjölskyldunni og eina manneskju sem telst vera fjórði ættliður innan sinnar fjölskyldu sem leikur með Leikdeild Skallagríms.

Æfingar hafa gengið mjög vel en fjöldi fólks hefur unnið hörðum höndum að því að láta þessa uppsetningu verða að veruleika, enda ekki létt verk að setja upp svona stóra sýningu. Eiginlega má segja að allmargir í sveitunum umhverfis Lyngbrekku hafi lagt lóð á vogaskálarnar við uppsetningu þessa verks með því að rjúka til í tíma og ótíma og draga leikhópinn í smærri eða stærri einingum upp úr sköflum eða skurðum og með því séð til þess að æfingar héldu áfram þrátt fyrir að veður og færð hafi verið með versta móti.

{mos_fb_discuss:2}