Starfsemi er komin á komi á fullt að loknum sumarleyfum hjá Leikfélagi Akureyrar. Leikfélagið heldur upp á 40 ára afmæli sem atvinnuleikhús í ár og tekur verkefnavalið mið af því. Leikárið byrjar á tveimur gestasýningum. Blakkát eftir Björku Jakobsdóttur verður sýnt í Samkomuhúsinu í september, frumsýnt þann 6. september og Segðu mér satt eftir Hávar Sigurjónsson með Ragnheiði Steindórsdóttur, Árna Pétri Guðjónssyni og Sveini Ólafi Gunnarssyni sem verður sýnt í Rýminu 7. september.
Æfingar á SEK eftir Hrafnhildi Hagalín hófust í síðustu viku og er óhætt að segja að hér sé á ferðinni magnað verk. Ingibjörg Huld Haraldsdóttir leikstýrir uppsetningunni og er hún fastráðin við leikhúsið í vetur, sér um aðstoðarleikstjórn í Gullna hliðinu og hefur umsjón með Skemmtilegt er myrkrið, nýju barnaverki sem frumsýnt verður á vordögum. Hilmir Jensson bætist við fastráðna leikarahópinn en Aðalbjörg Árnadóttir og Hannes Óli Ágústsson verða áfram hjá okkur. Við fáum til okkar lausráðna leikara í auknum mæli í vetur. Þráinn Karlsson leikur í Sek, Sunna Borg og Saga Jónsdóttir fara með hlutverk Lísu og Lísu í samnefndu verki og María Pálsdóttir verður í Gullna hliðs hópnum.
Undanfarin ár hefur LA verið í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri um Draugaslóðina í Innbænum á föstudagskvöldi Akureyrarvöku. Við ætlum okkur stóra hluti í ár og breytum Samkomuhúsinu í draugahús sem verður byrjunarreitur Draugaslóðarinnar að þessu sinni. Húsið opnar kl. 22.30.
Árlegu kynningarriti Leikfélagsins og Sinfóníu Norðurlands verður dreift miðvikudaginn 28. ágúst þar sem allar nánari upplýsingar um glæsilega dagskrá vetrarins er að finna. Við bendum á að miða- og kortaverð verður ekki hækkað frá fyrra ári og að félagar í Leikfélagi Akureyrar fá árskortið á 7.500 krónur. Félagsaðild er öllum heimil.
Ný heimasíða Leikfélags Akureyrar verður opnuð í lok mánaðarins.