Leikfélag Reykjavíkur kynnti nýlega efniskrá vetursins og eins og endra nær er hún fjölbreytt og margt þar spennandi. Þar verða hláturtaugar kitlaðar, bestu vinkonur allra barna flytja inn í Borgarleikhúsið, ný leikgerð um Faust verður frumsýnd um jólin og við bjóðum til söng- og leikveislu þegar Gauragangur, Ólafs Hauks Símonarsonar verður settur á svið eftir langa bið.
Á Stóra sviðinu verður haustið byrjað á Söngvaseið en síðan tekur við nýtt leikrit eftir bandaríska leikskáldið Tracy Letts, Fjölskyldan – ágúst í Osage-sýslu. Verkið hefur farið sigurför um heiminn síðastliðið ár og sópað til sín verðlaunum, hlaut m.a. Pulitzer verðalaunin sem leikverk ársins 2007 og sama ár Tony verðlaunin og Drama Desk verðlaunin sem leikverk ársins. Hilmir Snær Guðnason mun leikstýra verkinu og hefur með sér sterkan hóp leikara.
Jólasýning Borgarleikhússins verður stórvirki úr bókmenntaheiminum í samstarfi við Vesturport, Faust, í nýrri leikgerð Vesturports sem byggð er á þjóðsögunni um Doktor Faustus. Gísli Örn Garðarsson leikstýrir verkinu og meðal leikara verða Ingvar E. Sigurðsson, Hilmir Snær Guðnason, Björn Hlynur Haraldsson, Víkingur Kristjánsson, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Jóhann Níels Sigurðsson, Hanna María Karlsdóttir, Rúnar Freyr Gíslason.
Gauragangur, eitt vinsælasta leikrit Ólafs Hauks Símonarsonar léttir þjóðinni lundina á nýju ári og mun sjálfur leikhússtjórinn Magnús Geir, leikstýra verkinu.
Leikárinu á stóra sviðinu líkur með stórvirki frá Litháen. Rómeó og Júlía í uppsetningu eins þekktasta leikstjóra heim, Oskaras Koršunovas. Sýningin kemur hingað í tenglum við Listahátíð í Reykjavík. Af þessu tilefni efnir Borgarleikhúsið til mikillar hátíðar undir nafninu Ást á öllum sviðum og verður boðið upp á þrjár ólíkar og töfrandi uppsetningar af verkinu Rómeó og Júlíu. Uppsetningu Koršunovas, uppsetningu Vesturport sem frumsýnd var í Borgarleikhúsinu árið 2002 og uppsetningu Þorleifs Arnar Arnarssonar sem frumsýnd var í Bern í Sviss fyrr á árinu og hlaut mikið lof gagnrýnenda þar.
Leiksýningar Nýja sviðsins verða sem áður meira ögrandi og spyrja áleitnari spurning. Fyrsta frumsýning ársins er á verkinu Heima er best eftir Enda Walsh, enskt samtímaverk um feðga sem búa saman. Þar ræður faðirinn lögum og lofum og lætur syni sýna endurskapa raunveruleikann dag eftir dag með farsakendum ýkjum.
Nýtt íslensk leikrit Rautt brennur fyrir eftir Heiðar Sumarliðason ungt leikskáld sem er að feta sín fyrstu skref í leikhúsinu. Þetta er fyrsta verk Heiðars sem sett er á svið og skoðar hann í verkinu sálarlíf mannsins og hvernig óvæntir atburðir geta kveikt óþekktar kenndir í mannssálinni.
Þú ert hér sló í gegn á síðasta leikári enda talaði verkið beint við íslenskan samtíma og tók á bankahruninu þegar það gerðist. Nú koma þeir Hallur Ingólfsson, Jón Páll Eyjólfsson og Jón Atli Jónasson aftur á svið með nýtt verk Góðir Íslendingar sem verður ekki síður beint samtal við þjóð sem er að reyna fóta sig eftir hrunið.
Stemmingin verður aðeins léttari á Nýja sviðinu þegar spánýr gamanleikur Dúfurnar verður frumsýndur á nýju ári. Verkið fjallar um mann sem lætur sig hverfa en svo birtist tvífari hans skömmu síðar og hreyfir heldur við hlutunum. Þarna er á ferðinni húmor í anda þess sem við þekkjum frá The Office þáttunum og frá dönsku félögunum í Klovn. Bragðmikill gamanleikur sem slær nýjan tón í íslensku leikhúsi.
Litla sviðið mun einkennast af gleði og trúðslátum í vetur. Verkin verða einföld en með skýrum skilaboðum. Þar verður börnum skemmt þegar þær Skoppa og Skrítla fara á tímaflakk og mæta með bakara svakara og Lúsí og ferðast um tímann. Charlotta Böving mun leikstýra glænýju leikriti fyrir börn og fullorðna þar sem einlægir trúðar fara á kostum í könnunarleiðangri sínum á vatni í Bláa gullinu. Tuttugu ára gamlar stjörnur af öldum ljósvakans snúa aftur þegar þeir Harry og Heimir mæta á svið í september og munu þeir skemmta leikhúsgestum með einu af sínum glæpsamlega fyndnu svakamálaleikriti.
Dauðasyndirnar fara aftur á svið í október og hita upp fyrir nýtt verk sem hópurinn mun frumsýna í nóvember Jesús litli. Trúðarnir eru ekki vön að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur og að þessu sinni taka þau sjálft jólaguðspjalli og túlka eftir sínu eigin trúðanefi.
Eilíf óhamingja, sjálfstætt framhald af verkinu Eilíf hamingja, sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu árið 2007 verður sett upp eftir áramót. Leikhópurinn tekur upp þráðinn og við fylgjumst með markaðsfólkinu sem upplifði sig sem toppinn á „íslenska efnahagsundrinu“ fallið til jarðar og starfandi í fyrirtækjum í eigu ríkisins. Þetta eru sár umskipti og þau eiga erfitt með að sætta sig við breytingarnar.
Borgarleikhúsið heldur áfram að styrkja hópinn og í ár hafa nýir kraftar komið til starfa við leikhúsið. Nýir leikarar á fastan samning eru m.a. Hilmir Snær Guðnason, Ilmur Kristjánsdóttir, Jörundur Ragnarsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Rúnar Freyr Gíslason. Nýr markaðsstjóri tók til starfa í við leikhúsið í sumar, Lára Aðalsteinsdóttir og Auður Jónsdóttir rithöfundur hefur starfað við leikhúsið á vegum leikritunarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur undanfarið ár.
Síðastliðið leikár var nýtt fyrirkomulag áskriftakorta kynnt og hlutu kortin hreint frábærar móttökur og ellefufaldaðist sala áskriftakorta milli ára. Áfram verður boðið upp á einfalt og þægilegt áskriftarfyrirkomulag, fjórar sýningar að eigin vali af allri dagskrá vetrarins á 8.900 krónur. Auk þess mun Borgarleikhúsið gera áfram einstaklega vel við ungt fólk og námsmenn og bjóða þeim áskriftarkort, fjórar sýningar að eigin vali, á 4.550 kr. Snarpur sýningartími verður í Borgarleikhúsinu, sýningartímabil stutt en sýningarnar sýndar þéttar.
{mos_fb_discuss:3}