allra_meina_bot_leikfelag_fljotsdalsherads_2Þór Ragnarsson, sem upphaflega átti að leika aðalhlutverkið í uppsetningu Leikfélags Fljótsdalshéraðs á verkinu Allra meina bót, er á leið í uppskurð eftir að hafa slasast á æfingu nokkrum dögum fyrir frumsýningu.

„Það átti að kitla mig í verkinu og mig kitlar svo svakalega að á einni æfingunni flaug ég fram úr rúminu og lenti á því. Ég sleit taug í öxlinni og er á leið í uppskurð á morgun,“ segir Þór. „Þetta var fjórum dögum fyrir frumsýningu. Ég var sendur suður í myndatöku með hraði og fékk út úr henni tveimur dögum síðar.“

Einar Rafn Haraldsson, sem leikstýrir verkinu ásamt Freyju Kristjánsdóttur, hljóp í skarðið fyrir Þór og leikur braskarann og flagarann Pétur S. Betúelsson sem leitar skjóls á sjúkrahúsi undan réttvísinni.

Verkið var frumsýnt um síðustu helgi en sýningin ferðast um félagsheimili á Héraði og Borgarfirði á næstu tveimur vikum.

Þór hefur farið með leikhópnum í þær sýningar sem búnar eru. „Maður hættir ekkert. Ég fylgi verkinu eins lengi og ég get. Ég fer núna í uppskurð og kem til baka og verð með í restinni.

Það er gaman að sitja í salnum og kunna verkið. Einar Rafn leysir þetta líka mjög vel.“

Birt með góðfúslegu leyfi Gunnars Gunnarssonar á Austurfrétt.