Leikfélag Hafnarfjarðar sýnir um þessar mundir barna- og fjölskylduleikritið Hodja frá Pjort í leikstjórn Ármanns Guðmundssonar. Verkið er byggt á sögu eftir Ole Lund Kirkergaard en leikgerðin er eftir Ingvar Bjarnason og Þórunni Grétu Sigurðardóttur. Sesselja Traustadóttir brá sér í gamla Lækjarskóla og horfði á verkið gagnrýnum augum.
Leikfélag Hafnarfjarðar
Leikstjóri Ármann Guðmundsson
Leikgerð eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur og Ingvar Bjarnason,
byggð á sögu eftir Ole Lund Kirkegaard
Frumsýnt 25. mars
Sýningar í gamla Lækjarskóla

hodja3.jpgLeikfélag Hafnarfjarðar frumsýndi á dögunum barna- og fjölskylduleikritið Hojda frá Pjort í litla leikhúsinu sínu í gamla Lækjarskóla. Félagið hefur haft aðstöðu í þessum húsakynnum um nokkurt skeið. Þar hefur farið vel um mig á helgarnámskeiðum og minni leiksýningum, en nú þótti mér heldur þröngt í kringum mig í leikhúsinu.

Hojda frá Pjort er efniviður í frábæra barnasýningu og Ole Lund Kirkegaard hefur einstakt lag á að skrifa texta svo allir haldist gapandi; fullorðnir sem börn. Það var alltaf gaman að lesa bækurnar hans fyrir krakkana og þær sem til eru á heimilinu lesa börnin núna sjálf aftur og aftur. Leikgerð Þórunnar Grétu og Ingvars er skemmtileg og trú höfundinum; leikandi létt og hnyttin með svolitlu poppívafi.

Sagan segir okkur frá Hodja litla sem langar að sjá heiminn en það þykir íbúum Pjort furðuleg forvitni og frá þeim fær hann lítinn stuðning. Hodja gefst ekki upp þótt erfiðlega gangi að komast af stað. Hann mætir kokhraustur viðhorfum bæjarbúa og með hjálp góðs manns og stuðnings móður sinnar kemst hann á flug á litlu töfrateppi, sem átti voða fínt hljóð í sýningunni. Brellurnar í kringum teppið voru líka fínar og hefðu vel mátt vera enn fleiri; það er sjaldan nóg af göldrum í leikhúsinu. Hodja er leikinn af Sigurði Jóel Vigfússyni. Hann er með skýra framsögn, ótrúlega yfirvegaður í leik sínum og náði góðu samspili við mótleikara sína. Í sýningunni koma fram 12 leikarar sem leika, syngja og spila á hljóðfæri. Ein söngrödd bar af öðrum, sem var móðir Hodja og leikin er af Rakel Mjöll Guðmundsdóttur. Annars fannst mér sýningin heldur komast á flug eftir hlé þegar við kynnumst hinum subbulega soldán sem Halldór Magnússon leikur og konunum (og manninum) í kvennabúri hans. Aldís Gyða Davíðsdóttir átti þá líka fína spretti í gervi Rottunnar og Ragnar Ólafsson var sannfærandi sem Grimmi, dýflissuvörður soldánsins.

hodja5.jpgÁrmann Guðmundsson leikstýrir sýningunni og gerir margt vel. Við vorum strax numin brott á óþekktar lendur sem við þó könnumst vel við; Búlgóslavía – man bara ekki alveg hvar það er… Léttleikinn og afslappelsið allsráðandi; ógn og skelfing; fals og prettir; hugrekki og dáð. Allt kom vel fram í sýningunni og kryddað var með skemmtilegheitum hópsins. Mér fannst vel unnið úr efninu og skemmti mér vel í leikhúsinu. Allir eru ýktir og allir hlæja stórt. Sama hvort fyndið sé fynd eða ekki fynd. Þetta nýtur sín sérdeilis vel í skemmtilegum lausnum Dýrleifar Jónsdóttur í búninga- og gervahönnun verksins. Tónlistarstjórn er í höndum Snæbjörns Ragnarssonar. Hann ætti helst bara að semja tónlist og texta fyrir leikhús. Svo vel gerði hann í Jólaævintýri Hugleiks. Það er greinanlegt að hann er með puttana í tónlistinni en það færi líklega enn betur á því að láta hann um ráðskast enn meira með tónaflóðið þar sem hann fæst til starfa á annað borð. Ljósahönnun var prýðilega útfærð af Kjartani Þórissyni. Leikskráin er með einfaldara móti; falleg og án allra auglýsinga en vantar tímasetningu sem gæti flækst fyrir söguriturum framtíðarinnar.

hodja4.jpgLeikhópurinn er stór á þessu litla sviði og hópsenur margar. Því er það spælandi að taka svona mikið pláss fyrir leikmynd, sem var ekkert að vinna með verkinu. Það má ekki gleyma því hvað við áhorfendur erum til í að láta selja okkur allskonar lausnir og við þurfum ekkert að sjá borgarmúr til að vita að það eigi að vera múr á staðnum. Auk þess er fullt af leikurum til að leika leikmyndina ef á þarf að halda. Það var oft þröngt um sýninguna en það er möguleiki að sjá hana í stærra húsi og það er bara ef hún verður valin á stóra svið Þjóðleikhússins sem athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins. Það væri í góðu lagi mín vegna.

Sesselja Traustadóttir