ImageMikil fjölbreytni einkennir leikárið 2005-2006 hjá LA sem kemur í kjölfar eins mesta aðsóknarárs í sögu leikfélagsins. Í vetur verða átta leiksýningar á fjölunum. Þar af eru þrjár frumsýningar á: drepfyndnum gamanleik, kraftmiklum rokksöngleik og undurfallegu átakaverki. Sýningum verður haldið áfram á Pakkinu á móti sem frumsýnt var í vor við mjög góðar undirtektir. Til viðbótar þessu verða fjórar rómaðar gestasýningar í boði hjá LA fyrir leikhúsgesti á Akureyri.

Nýtt leikrými leikhússins verður tekið í notkun í mars. Það er svokallaður svartur kassi sem býður upp á fjölda nýrra möguleika.  Eins og á síðasta ári gefst ungu fólki kostur á að eignast fast sæti í allan vetur á niðursettu verði og sem fyrr á leikhúsið gott samstarf við fjölda fyrirtækja og annarra leikhúsa.

Fastráðnir leikarar
Fjórir nýir leikarar verða á föstum samningi hjá LA í vetur. Þetta eru þau: Álfrún Örnólfsdóttir, Esther Thalia Casey, Guðjón Davíð Karlsson og Jóhannes Haukur Jóhannesson. Þá hefur Þráinn Karlsson nú sitt fimmtugasta leikár hjá leikhúsinu. Þessir leikarar verða uppistaðan í dagskrá vetrarins en að auki verður glæsilegur hópur lausráðinna leikara í stökum verkefnum.

Verkefni leikársins 2005-2006 eru:

Pakkið á móti eftir Henry Adams í leikstjórn Agnars Jóns Egilssonar. Kaldranalegt en broslegt leikrit sem stendur skuggalega nærri fréttum líðandi stundar af hryðjuverkaárásum á London. Verkið var frumsýnt í vor og verður tekið upp á ný nú í september.

Fullkomið brúðkaup eftir Robin Hawdon í leikstjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar. Drepfyndinn og rómantískur gamanleikur um brúðkaupsdag þar sem allt fer á annan endann. Hratt, fullt af misskilningi, framhjáhöldum og ást. Höfundurinn skrifaði leikgerð Sex í sveit sem Íslendingar þekkja. Frumsýnt í október.

Litla hryllingsbúðin, söngleikur eftir Howard Ashman og Alan Menken í leikstjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar. Sígildur rokksöngleikur, fullur af húmor og grípandi tónlist. Baldur eyðir dögunum í blómabúðinni og lætur sig dreyma um ástir samstarfskonu sinnar, Auðar. Dag einn uppgötvar hann sérkennilega plöntu. Í ljós kemur að hún hefur undarlega eiginleika og gríðarlega matarlyst. Plantan vex, vekur óskipta athygli og viðskiptin blómstra sem aldrei fyrr þar til atburðarrásin tekur óvænta stefnu. Stórsýning frumsýnd í febrúar. Sett upp í samstarfi við Íslensku óperuna.

Maríubjallan eftir Vassily Sigarev í leikstjórn Jóns Páls Eyjólfssonar. Þýðing: Árni Bergmann. Maríubjallan er kraftmikið og magnað átakaverk eftir eitt fremsta leikskáld nýrrar kynslóðar í Evrópu. Dima er 19 ára, í kvöld heldur hann kveðjupartí fyrir vini sína því á morgun fer hann í herinn. Kvöldið tekur óvænta stefnu en á einni nóttu fáum við magnaða innsýn í líf persónanna og kynnumst vonum þeirra og þrám. Frumsýnt í nýju leikrými LA, Húsinu í mars.

Belgíska Kongó eftir Braga Ólafsson í leikstjórn Stefáns Jónssonar. Rómuð sýning Borgarleikhússins þar sem Eggert Þorleifsson fer á kostum í hlutverki hinnar fjörgömlu Rósalindar. Sýnt 30. sept og 1. okt á Akureyri.

Edith Piaf eftir Sigurð Pálsson í leikstjórn Hilmars Jónssonar. Brynhildur Guðjónsdóttir hefur heillað landsmenn síðustu tvö leikár í Þjóðleikhúsinu í hlutverki Piaf. Nú gefst Norðlendingum tækifæri á að upplifa túlkun Brynhildar í dagskrá sem sett er saman úr sýningunni. Sýnt á Akureyri í nóvember.

Ævintýrið um Augastein eftir Felix Bergsson í leikstjórn Kolbrúnar Halldórsdóttur. Yndisleg jólasaga þar sem gátunni er svarað um það hvernig gömlu, hrekkjóttu jólasveinarnir urðu að hinum gjafmildu öðlingum sem þeir eru í dag. Gestasýning frá leikhópnum Á senunni sem sýnd verður í desember í aðdraganda jólanna.

Ausa Steinberg eftir Lee Hall í leikstjórn Maríu Reyndal. Ausa Steinberg er afar falleg og vönduð leikhúsperla sem vakti mikla hrifningu þegar hún var sýnd á Akureyri og í Reykjavík í fyrravetur. Ilmur Kristjánsdóttir fer á kostum í yndislegu hlutverki níu ára einhverfs ofvita. Sýnt á Akureyri í janúar.

 Húsið – nýtt leikrými
Í vetur mun LA taka í notkun nýtt húsnæði undir starfsemi sína. Þar fær LA nýtt leikrými til sýningarhalds og æfinga. Í nýja húsnæðinu verður betur búið að leikmuna-, leikmynda- og búningasafni leikhússins en verið hefur. Leikrýmið er svokallaður svartur kassi sem hægt er að nýta á fjölbreyttan hátt. Rýmið er afar ólíkt Samkomuhúsinu og opnar því fjölda nýrra möguleika í starfsemi leikhússins. Leikhúsið er í Hafnarstræti 74, í nágrenni samkomuhússins.

 Áhersla á að laða nýja áhorfendur að leikhúsinu
Aðsókn hefur sjaldan verið meiri en á síðasta leikári en stór hluti aukningarinnar er til kominn vegna viðleitni leikhússins til að laða nýja áhorfendur að leikhúsinu, ekki síst yngri kynslóðirnar. Ungu fólki býðst í vetur að kaupa áskriftarkort á hálfvirði í boði Landsbanka Íslands. Þannig eignast þeir sem eru yngri en 25 ára fast sæti í allan vetur á bíóverði.

 Stuttur og þéttur sýningartími
Í fyrra var tekið upp nýtt sýningarfyrirkomulag sem byggist á því að hvert verk er sýnt þétt í stuttan tíma. Því er aðeins eitt verk á fjölunum í einu en það hefur fjölda kosta í för með sér, bæði í listrænu og rekstrarlegu tilliti. Áhorfendur verða því að grípa gæsina, annars eiga þeir á hættu á að missa af mögnuðum kvöldstundum.

 Leiklestrar – ný innlend og erlend leikrit
Í vetur verður efnt til leiklestra á nýjum leikritum. Markmiðið er að kynna áhorfendum ný leikrit en einnig að ,„prufukeyra“ leikrit sem leikhúsið er með til skoðunar fyrir næsta vetur. Áhorfendur eru hvattir til að segja sína skoðun og hafa þannig áhrif á verkefnaval leikhússins. Meðal verkefna sem stendur til að lesa er nýtt verk eftir Sigtrygg Magnason og Hr. Kolpert eftir David Gieselmann.

 Valgreinakennsla, námskeið og heimsóknir
LA tók á síðasta leikári upp samstarf við Grunnskóla Akureyrarbæjar um valgreinakennslu í leiklist fyrir nemendur í 8. og 9. bekk. Tilraunin heppnaðist afar vel og verður framhald á henni í vetur. Nemendur koma vikulega í heilt misseri í leikhúsið og kynnast lífinu í þar. Einnig verður staðið fyrir opnum leiklistarnámskeiðum og völdum árgöngum boðið í heimsókn í leikhúsið.

 Máttarstólpar LA
LA er eina atvinnuleikhúsið utan höfuðborgarsvæðisins. Það er rekið með stuðningi Akureyrarbæjar á grunni samstarfssamnings við ríkið um reynslusveitarfélög. LA á í víðtæku samstarfi við ólíka aðila í þjóðfélaginu. Stuðningur nokkurra fyrirtækja hefur gert LA kleift að bjóða upp á jafn viðamikið leikár 2005-2006 og raun ber vitni. Þetta eru fyrirtækin: Ásprent, Egils, Eimskip, Flugfélag Íslands, KEA Hótel, Landsbankinn, Norðurorka, Morgunblaðið, Olís, Síminn og Visa.

 
Ýmis önnur starfsemi og „Leikhúsferðir til Akureyrar“

Ýmis önnur starfsemi verður í leikhúsinu í vetur, m.a. ljósmyndasýningar í Borgarasal í tengslum við uppsetningar leikhússins og umræður að loknum sýningum. Þá á leikhúsið í samstarfi við fjölda aðila sem saman vinna að því að hvetja landsmenn alla til að bregða sér í leikhúsferðir til Akureyrar.

Nánari upplýsingar veitir Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri LA, í síma 4600 205 / 863 8630.