Þjóðleikhúsið endurheimtir brátt sinn forna glæsileika eftir viðamiklar utanhússviðgerðir. Vetrardagskráin verður ekki síður glæsileg en húsið sjálft en í vetur frumsýnum við fjögur ný íslensk leikrit, tvö eldri íslensk verk og sjö erlend leikrit.

Á nýju leikári verða fjögur ný íslensk verk frumsýnd í Þjóðleikhúsinu. Áslaug Jónsdóttir, margverðlaunuð bókverkakona, skrifar sitt fyrsta leikverk fyrir Þjóðleikhúsið sem og stallbróðir hennar úr rithöfundastétt, Hallgrímur Helgason. Einnig sýnir Þjóðleikhúsið ný verk eftir leikskáldin Bjarna Jónsson og Hugleik Dagsson. Aukinheldur verða tvö eldri íslensk verk á fjölunum; Skilaboðaskjóðan eftir Þorvald Þorsteinsson og leikritið Sólarferð, eitt vinsælasta leikrit Guðmundar Steinssonar. Vinkonurnar Skoppa og Skrítla snúa líka aftur í Þjóðleikhúsið með nýja sýningu fyrir yngstu leikhúsgestina.

Þjóðleikhúsið sýnir fimm ný leikrit eftir evrópsk leikskáld. Þarna eru á ferðinni ögrandi verk sem fjalla á áleitinn hátt um samtíma okkar. Þar af er nýtt verk eftir Yasminu Reza sem landsmenn kannast vel við en leikrit hennar, Listaverkið, sló í gegn í Þjóðleikhúsinu árið 1997.

Fjórir leikstjórar þreyta frumraun sína í Þjóðleikhúsinu á leikárinu: Gísli Örn Garðarsson, sem vakið hefur mikla athygli fyrir störf sín með leikhópnum Vesturporti. Gísli leikstýrir og leikur aðalhlutverkið í íslenskri uppfærslu á Hamskiptunum, sýningu sem þegar hefur hlotið mikið lof í London. Benedikt Erlingsson sem var aðsópsmikill á síðustu Grímuverðlaunaafhendingu (leikstjóri, leikari og leikskáld ársins), og þau Kristín Eysteinsdóttir og Hafliði Arngrímsson hafa öll vakið athygli fyrir áhugaverðar sýningar á undanförnum árum.

Þjóðleikhúsið verður „afhjúpað“ að nýju eftir gagngerar endurbætur á ytra byrði aðalbyggingarinnar í október. Í tengslum við þær framkvæmdir kynnir húsið nýtt merki þar sem sviðum þess er mörkuð skýr sérstaða. Einkennismerkið tekur mið af turnsúlum byggingarinnar, þar sem miðjusúlan, sú rauða, táknar Stóra sviðið, hjarta leikhússins, bláa súlan Kassann, græna súlan     Smíðaverkstæðið, bleika súlan Kúluna og rauðgula súlan aðrar sýningar svo sem farand- og gestasýningar.

Stóra sviðið
Hamskiptin eftir Franz Kafka. Leikgerð: Gísli Örn Garðarsson og David Farr. Leikstjóri Gísli Örn Garðarsson. Bráðfyndið en ógnvekjandi verk um ofurhversdagslega fjölskyldu í martraðarkenndum aðstæðum. Ný íslensk uppfærsla á verkinu sem Vesturport sýndi við frábærar undirtektir í London.
Ívanov eftir Anton Tsjekhov. Leikgerð og leikstjórn: Baltasar Kormákur. Sígildur gamanleikur Tsjekhovs tekinn ferskum tökum, kvikmynd og leiksýning verða til á sama tíma. 
Sólarferð eftir Guðmund Steinsson. Leikstjórn: Benedikt Erlingsson. Geysivinsælt verk eftir eitt af okkar fremstu leikskáldum um hamingjuleit Íslendinga í „himnaríki holdsins“. Benedikt Erlingsson og Ragnar Kjartansson myndlistarmaður og leikmyndahönnuður vinna í fyrsta sinn saman í Þjóðleikhúsinu.
Ástin er diskó – lífið er pönk eftir Hallgrím Helgason. Leikstjórn: Gunnar Helgason. Tónlistarstjóri Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Nýr söngleikur um litríkan tíma. Danssmellir diskótímans og „pönkperlur“ í bland við nýja tónlist. 
Engisprettur eftir Biljana Serbjanovits. Leikstjórn: Þórhildur Þorleifsdóttir. Hrífandi angurværð og helsvartur húmor eiga óvænta samleið í nýju verki um átök kynslóðanna.
Skilaboðaskjóðan eftir Þorvald Þorsteinsson og Jóhann G. Jóhannsson. Leikstjórn: Gunnar Helgason. Ævintýrasöngleikur sem hver ný kynslóð ungra áhorfenda verður að fá að sjá!

Kassinn
Óhapp! eftir Bjarna Jónsson. Leikstjórn: Stefán Jónsson. Nýtt verk úr íslenskum samtíma þar sem veruleikinn er framreiddur í sífellt nýrri mynd.
Baðstofan eftir Hugleik Dagsson. Leikstjórn: Stefán Jónsson. Aðstandendur söngleiksins Legs halda áfram að kanna ástand íslensku þjóðarinnar og möguleika leikhússins.

Smíðaverkstæðið
Konan áður eftir Roland Schimmelpfennig. Leikstjórn: Hafliði Arngrímsson. Hvernig tekur þú á móti æskuástinni þegar hún birtist fyrirvaralaust á þröskuldinum hjá þér?
Vígaguðinn eftir Yasminu Reza. Leikstjórn: Melkorka Tekla Ólafsdóttir. Með sínum hárbeitta húmor fjallar Reza um mörkin á milli hins villimannslega og siðmenntaða í manninum.
Sá ljóti eftir Marius von Mayenburg. Leikstjórn: Kristín Eysteinsdóttir. Lárus er ljótur – svo ljótur að hann fær ekki einu sinni að fara á ráðstefnu á vegum fyrirtækisins. 

Kúlan
Gott kvöld eftir Áslaugu Jónsdóttur. Leikstjórn: Þórhallur Sigurðsson. Bráðskemmtileg og óvenjuleg barnasýning með söngvum, byggð á samnefndri metsölubók.
Skoppa og Skrítla í „söng-leik“ eftir Hrefnu Hallgrímsdóttur. Leikstjóri: Þórhallur Sigurðsson.  Vinkonurnar snúa aftur í leikhúsið með glænýja sýningu þar sem lögin úr leikskólanum klæðast leikhúsbúningi.

Farandsýning
norway.today eftir Igor Bauersima. Leikstjórn: Vigdís Jakobsdóttir. Skemmtilega þverstæðukennt verk um tvær ráðvilltar sálir í leit að hinu endanlega adrenalín-kikki.

Frá fyrra leikári:
Söngleikurinn Leg Sýningin fékk 12 tilnefningar til Grímuverðlaunanna í vor.
Hjónabandsglæpir. Elva Ósk Ólafsdóttir og Hilmir Snær Guðnason voru bæði tilnefnd til Grímuverðlauna fyrir leik sinn í verkinu. Uppselt var á allar sýningarnar í vor.
Hálsfesti Helenu Umræður og erindi eftir sýningar mæltust vel fyrir á síðasta leikári og verður framhald á því. 
Leitin að jólunum Aðventuævintýri Þorvaldar Þorsteinssonar er orðið fastur liður á aðventunni í Þjóðleikhúsinu. Í fyrra seldist upp á örskömmum tíma.

Gestasýningar
Frelsarinn eftir Kristján Ingimarsson
Leikstjórn: Jón Páll Eyjólfsson og Kristján Ingimarsson
Gestasýning frá leikhópnum Neander sem hefur verið sýnd við glimrandi undirtektir í Danmörku. Kristján hefur meðal annars sýnt einleik sinn Mike Attack hér á landi en snýr nú aftur með stórpólitískt dansk/íslenskt samstarfsverkefni. Kristján leitar að þessu sinni í heilaga ritningu og spinnur myndræna og líkamlega krefjandi sýningu sem ögrar mörgum lögmálum, skráðum og óskráðum. 
Frelsarinn er tilkomumikil sýning án orða þar sem blandað er saman leiklist, dansi og bardagaíþróttum.
Leikarar: Bo Madvig, Camilla Marienhof og Kristján Ingimarsson. 
Sýnt í nóvember.

Kafka og sonur
Höfundur og flytjandi: Alon Nashman
Meðhöfundur og leikstjóri: Mark Cassidy
Gestasýning frá Kanada sem kallast á áhugaverðan hátt á við sýningu Þjóðleikhússins á Hamskiptunum. Áleitinn einleikur um samband rithöfundarins Franz Kafka við föður sinn. Verkið byggir á bréfi sem Franz Kafka skrifaði til föður síns en sendi aldrei, en í bréfinu játar hann að öll sín skrif hafi á einn eða annan hátt snúist um föðurinn. Frammistöðu Alon Nashman hefur verið ákaft hrósað af fjölda gagnrýnenda og verkið hefur fengið rífandi viðtökur. Afhjúpandi, íhugul og á köflum grimmilega fyndin sýning. Leikið er á ensku.
Sýningar 18.-21. október.