ImageVegna forfalla hafa losnað 2 pláss á námskeiði Ágústu Skúladóttur í Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga að Húsabakka í Svarfaðardal dagana 10. til 18 júní nk.

Á námskeiðinu verður unnið markvisst að því að sviðsetja smásögu.
Byggt er á aðferðinni „devised theatre“, þ.e. þegar hópurinn vinnur saman á æfingaferlinu að því að sviðsetja og finna leiklausnir fyrir verkið. Þegar unnið er á þennan hátt er hópurinn aðalatriðið, aðalpersónan, og oftar en ekki þurfa allir að vera meira eða minna virkir allan tímann. Samtenging leikara og hlustun þeirra á milli þarf að vera mjög öguð og farið verður í undirstöðuaðferðir til að efla slíka hlustun.
Í upphafi verður einnig litið á ólikar leikaðferðir til að segja sömu söguna, t.d. Bouffon, trúðleik eða melodrama.
Námskeiðið kostar kr. 45.000 og er ætlað þeim sem hafa einhverja reynslu af leiklist án þess að hafa endilega sótt undirbúningsnámskeið.

Ágústa Skúladóttir lærði leiklist hjá Monicu Pagneux í Paris og Philippe Gauliere í London. Einnig tók hún Mastersnámskeið hjá Theatre de Complicite, John Wright, David Glass, Bruce Meyers og Trestle Theatre Company. Hún starfaði í nokkur ár í London sem leikkona og uppistandari og er einn af stofnendum leikhópsins Icelandic Take Away Theatre og hefur unnið að 10 sýningum félagsins sem leikari, höfundur eða leikstjóri. Ágústa er um þessar mundir fastráðin leikstjóri hjá Þjóðleikhúsinu og leikstýrði þar m.a. Klaufum og kóngsdætrum sem fékk Grímuna sem besta barnasýningin 2005 og Eldhús eftir máli sem hefur hlotið góðar viðtökur nú í vetur. Þetta er í þriðja sinn sem Ágústa kennir við skólann.

Skráning á info@leiklist.is og mæting er að Húsabakka föstudagskvöldið 9. júní.