Litli leikklúbburinn frumsýndi jólaleikritið Lápur, Skrápur og jólaskapið eftir Snæbjörn Ragnarsson, í leikstjórn Tinnu Ólafsdóttur um liðna helgi en þetta er fyrsta verkið sem Tinna leikstýrir. Uppselt var á báðar sýningarnar um helgina og fóru leikhúsgestir uppfullir af jólaskapi af sýningunni. Miðasala er í fullum gangi á sýningarnar á næstu helgi og hægt að kaupa miða á vef félagsins.
Lápur, Skrápur og jólaskapið er sannkölluð fjölskyldusýning, þar sem börn á öllum aldri tengd aðstandendum sýningarinnar sátu æfingar og syngja nú lögin úr sýningunni heima hjá sér (að minnsta kosti er það raunin á heimili formannsins).  Lápur, Skrápur og jólaskapið er annað verkið sem Litli leikklúbburinn sýnir á árinu. Félagið fer ört stækkandi og sumir meðlimir eru að stíga sín fyrstu skref á sviði í sýningunni.
Skúli Þórðarson og Þórður Jóhann Guðbrandsson eiga stórleik sem tröllastrákarnir Lápur og Skrápur sem reknir eru úr Grýluhelli til að finna jólaskapið, þar sem þeir eru ekki hellum hæfir svona stutt í jól, hrekkjóttir og óþekkir. Bræðurnir hitta mannabarnið Sunnu sem vill allt geta til að aðstoða þá við að finna jólaskapið. Anna Ásgerður Hálfdánardóttir og Salka Gallo skipta með sér hlutverki Sunnu og hefur það verið aðdáunarvert að sjá svo ungar stelpur leggja þessa miklu vinnu á sig og skína á sviðinu, hvor á sinn hátt. Grýlu, Leiðindaskjóðu og Gáttaþef bregður einnig fyrir í leikritinu en með hlutverkin fara Hjördís Þráinsdóttir, Sædís Ólöf Þórsdóttir og Sveinberg Þór Birgisson.
Lápur, Skrápur og jólaskapið er frábær 50 mínútna jólasýning fyrir alla fjölskylduna sem kemur öllum í jólaskap og við hlökkum til að finna jólaskapið með góðum gestum að minnsta kosti tvisvar í viðbót um næstu helgi.
Nánari upplýsingar um sýninguna eru á www.litlileik.is