Norður-evrópska áhugaleikhúsráðið, NEATA, stendur fyrir leiklistarhátíðum á tveggja ára fresti og skiptast aðildarlöndin á að halda hana. Í sumar er komið að Lettlandi og verður hátíðin haldin í Riga dagana 5. til 10. ágúst. Til hennar er boðið sýningum frá aðildarlöndum NEATA: Danmörku, Eistlandi, Færeyjum, Finnlandi, Íslandi, Litháen, Noregi, Svíþjóð og Lettlandi.

Leiksmiðjur og gagnrýni verða á sínum stað en nákvæm dagskrá er ekki tilbúin ennþá. Komudagur er þriðjudagur 5. ágúst og brottfarardagur er sunnudagur 10. ágúst.

Íslenska sýningin á hátíðinni verður Bingó eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur í flutningi Hugleiks og Leikfélags Kópavogs.

Einstaklingum býðst að sækja hátíðina sem áhorfendur og þátttakendur í öllum viðburðum hátíðarinnar.

Okkur býðst að búa með leikhópunum í heimavistarskóla þar sem þrír deila herbergi með W.C og sturtum á göngunum. Skólinn er staðsettur í furuskógi í um 25 km. fjarlægð frá leikhúsinu en rútur flytja þátttakendur milli staða eftir þörfum. Þetta kostar einungis 15 evrur á dag (um 1.800 ísk. skv. gengi dagsins). Einnig bjóða Lettar uppá gistingu á hótelum rétt hjá leikhúsinu fyrir 75 evrur nóttina með morgunmat (sjá http://www.laine.lv/eng/ ). Þá þarf að greiða eitthvað smávegis aukalega til að taka þátt í viðburðum hátíðarinnar og borga matinn sinn sjálfur.

Áhugasamir geta einnig verið í Riga á eigin vegum á meðan á hátíðinni stendur, heyrst hefur að einhverjir ætli að leigja sér íbúðir eða búa á ódýrari gistiheimilium. Lettar hafa ekki ákveðið ennþá hvort þeir selja inn á leiksýningar hátíðarinnar þeim sem ekki eru skráðir þátttakendur en frítt er inn á leiksmiðjur og gagnrýni á sýningarnar.

Fargjöld til Riga kosta skv. lauslegri könnun skrifstofunnar um 60.000 báðar leiðir með millilendingu í Kaupmannahöfn. Það er Air Baltic (http://www.airbaltic.com ) sem flýgur milli Kaupmannahafnar og Riga.

Tilkynna skal um þátttöku til Bandalags íslenskra leikfélaga fyrir 15. maí 2008 í netfangið info@leiklist.is. Takið fram hvers konar gistingu óskað er eftir.