1. grein
Samtökin nefnast Bandalag íslenskra leikfélaga. Heimili Bandalagsins og varnarþing er í Reykjavík.
2. grein
Bandalagið er landssamtök áhugaleikfélaga á Íslandi og kemur fram fyrir hönd leikfélaganna gagnvart íslenskum og erlendum yfirvöldum. Það gætir hagsmuna áhugaleiklistarinnar innan samtaka leikhúsfólks, t.d. í Leiklistarsambandi Íslands og fer með aðild Íslands að Norræna áhugaleikhúsráðinu, NAR, Norður-evrópska áhugaleikhúsráðinu, NEATA, og Aþjóðlega áhugaleikhúsráðinu, IATA.
3. grein
Markmið Bandalagsins er að vinna að þróun og eflingu leiklistar á Íslandi.
Markmiði þessu hyggst það ná með því:
1. Að stuðla að uppbyggingu leiklistarstarfs í öllum byggðarlögum landsins.
2. Að gera áhugafólki kleift að afla sér menntunar í listinni og skapa því aðstöðu til að þroskast í menningarlegu og faglegu tilliti.
3. Að annast innkaup og sölu á varningi sem leiklistarstarfsemin þarfnast.
4. Að útvega leikverk og sjá um fjölritun þeirra eða útgáfu.
5. Að útvega leikstjóra/leiðbeinendur sé þess óskað.
6. Að miðla upplýsingum og fræðslu á skilvirkan hátt.
7. Að kynna starfsemi íslenskra áhugaleikfélaga innan lands sem utan.
8. Að örva leikfélög til að leita nýrra leiða í leiklistarstarfi.
Til að auðvelda sér að ná markmiðum sínum rekur Bandalagið þjónustumiðstöð.
4. grein
Öll félög áhugamanna, sem hafa leiklist á stefnuskrá sinni og verja öllum sínum tekjum til viðhalds og uppbyggingar leiklistinni sjálfri og ekki eru tengd neinni stofnun, geta gerst aðilar að Bandalaginu. Heimilt er þó að veita leikfélögum aldraðra og öryrkja aðild, þó þau séu tengd stofnun, enda uppfylli þau önnur skilyrði um inngöngu. Inngöngubeiðni þarf að vera skrifleg og skal fylgja afrit af lögum félagsins og upplýsingar um hverjir skipa stjórn þess. Stjórn Bandalagsins afgreiðir inngöngubeiðnir og leggur samþykktar beiðnir fram til staðfestingar á aðalfundi. Gæta þarf þess að félagslög brjóti ekki í bága við lög Bandalagsins. Aðildarfélög greiða árgjöld til Bandalagsins samkvæmt ákvörðun aðalfundar þess. Gjalddagi árgjalda er 1. september.
5. grein
Bandalagið aflar sér tekna með:
1. Opinberum styrkjum.
2. Árgjöldum félaganna.
3. Öðrum þeim leiðum sem stjórn og framkvæmdastjóri sameiginlega telja færar.
6. grein
a) Aðalfundur er æðsta vald Bandalagsins og skal hann haldinn eigi síðar en í september ár hvert. Stjórn Bandalagsins ákveður þingstað hverju sinni. Aðalfundur skal boðaður með minnst mánaðar fyrirvara. Í fundarboði skal tilgreina þingstað, fundartíma og dagskrá fundarins. Fundarboði skulu fylgja reikningar Bandalagsins og framkomnar lagabreytingartillögur. Tillögur til lagabreytinga skulu sendar þjónustumiðstöð Bandalagsins eigi síðar en 6 vikum fyrir aðalfund. Hvert aðildarfélag hefur eitt atkvæði á aðalfundi og skal einn fulltrúi fara með atkvæðið. Heimilt er að tilnefna annan fulltrúa til vara. Allir fundarmenn hafa málfrelsi og tillögurétt. Kjörbréf til handa fulltrúanum og varamanni hans skulu staðfest af formanni eða ritara viðkomandi félags og afhent starfsfólki þjónustumiðstöðvar fyrir fundinn.
b) Verkefni aðalfundar skulu vera:
1. Fundarsetning. Kosning 2ja fundarstjóra og 2ja fundarritara, sem taka þegar til starfa. Lögmæti fundarins kannað.
2. Kjörnefnd afgreiðir kjörbréf og afhendir atkvæðaspjöld, skýrir stöðu mála varðandi stjórnarkjör og auglýsir eftir tillögum.
3. Menningarstefna Bandalagsins lesin og rædd.
4. Staðfest inntaka nýrra félaga, félög tekin af félagaskrá.
5. Fundargerð síðasta aðalfundar afgreidd.
6. Skýrsla stjórnar.
7. Framkvæmdastjóri leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs og skýrir þá.
8. Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla reikninga.
9. Skýrslur nefnda og umræður um þær.
10. Drög að starfsáætlun næsta árs kynnt og skipað í starfshópa.
11. Kjörnefnd tilkynnir niðurstöður sínar og mælir með a.m.k. 1 aðila í hvert sæti sem kjósa skal í.
12. Lagabreytingar.
13. Tillögur lagðar fyrir fundinn.
14. Starfsáætlun afgreidd.
15. Stjórnarkjör.
16. a. Kosning 3ja manna kjörnefndar og eins varamanns til eins árs.
b. Kosning 2ja skoðunarmanna reikninga og eins til vara til eins árs.
17. Ákveðið árgjald til Bandalagsins.
18. Önnur mál
19. Næsti aðalfundur, hugmyndir reifaðar um stað og stund.
c) Tillögur sem kjörnefnd getur ekki gert að sínum og tillögur sem berast eftir að kjörnefnd lýkur störfum skulu studdar af a.m.k. 3 atkvæðisbærum fulltrúum. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður útslitum mála á aðalfundi, þar sem annað er ekki tekið fram. Enginn getur farið með fleiri en eitt atkvæði á aðalfundi. Til lagabreytinga og brottvikningar úr Bandalaginu þarf 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi.
d) Kveða skal til aukafundar ef tíu eða fleiri félög óska þess. Framkvæmdastjóri skal þá boða strax til aukafundar og skal hann haldinn innan eins mánaðar frá boðun. Aðalfundir og aukafundir eru löglegir og ályktunarhæfir ef löglega er til þeirra boðað.
e) Fundargerðir aðalfunda skulu samþykktar af stjórn og birtar á leiklistarvefnum.
7. grein
Stjórn Bandalagsins fer með æðsta vald Bandalagsins milli aðalfunda, hana skipi 5 menn, formaður, varaformaður, ritari og tveir meðstjórnendur. Þeir skulu kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn, þannig að annað árið er kosinn formaður og einn stjórnarmanna, en næsta ár þrír stjórnarmenn. Formaður er kosinn sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Á sama hátt skal kjósa ýmist tvo eða þrjá í fimm manna varastjórn. varastjórnarmenn eru boðaðir á alla stjórnarfundi og hafa málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt nema þegar þeir taka sæti í aðalstjórn vegna forfalla aðalmanna. Kosningar skulu bundnar við uppástungur. Formaður boðar til stjórnarfunda. Halda skal minnst fjóra stjórnarfundi á ári og skulu fundargerðir sendar út til félaganna. Fundur er lögmætur ef minnst þrír aðalmenn mæta.
8. grein
Stjórn ræður framkvæmdastjóra fyrir Bandalagið, svo og annað starfsfólk. Framkvæmdastjóri fer með framkvæmdavald í umboði stjórnar. Hann skal annast daglegan rekstur Bandalagsins og vinna að öðru leyti í samræmi við þessi lög. Um önnur nauðsynleg atriði skal fjalla í ráðningarsamningi. Framkvæmdastjóri er ábyrgur gagnvart stjórn Bandalagsins og aðalfundi þess. Hann, sem og annað fastráðið starfsfólk Bandalagsins, skal hafa málfrelsi og tillögurétt á aðalfundi og öðrum fundum bandalagsins. Starfsfólk Bandalagsins skal ekki fara með atkvæði á aðalfundi.
9. grein
Starfsfólki Bandalagsins er heimilt að greiða fyrir einstaklingum, skólum og félögum utan Bandalagsins, enda sé því kunnugt að það brjóti ekki í bága við hagsmuni Bandalagsfélaganna. Fyrir slíka aðstoð áskilur Bandalagið sér þóknun.
10. grein
Stjórn skipar nefndir til að sinna þeim verkefnum sem þurfa þykir, eða kveðið er á um í starfsáætlun. Stjórn afhendir hverri nefnd skipunarbréf þar sem kveðið er á um hlutverk nefndarinnar. Nefndir starfa eftir tímaramma og gera stjórn grein fyrir framvindu mála sé þess óskað. Nefndir skila skýrslu á aðalfundi.
11. grein
Kjörnefnd starfar milli aðalfunda. Skal hún kanna hug aðildarfélaganna til stjórnarkjörs og taka við tillögum.
12. grein
Reikningsár Bandalagsins er almanaksárið. Reikningar þess skulu settir upp af löggiltum endurskoðanda og skulu þeir vera tilbúnir fyrir skoðunarmenn reikninga eigi síðar er fjórum vikum fyrir aðalfund.
13. grein
Sérhvert aðildarfélag skal senda Bandalaginu ítarlega skýrslu um starfsemi sína, fyrir 10. júní ár hvert, á þar til gerðum eyðublöðum frá þjónustumiðstöðinni. Þar skal getið verkefna á leikárinu, fjölda leiksýninga, sýningarstaða og annars þess sem máli kann að skipta. Á sama tíma skulu stjórnir aðlidarfélaganna skila greinargerð um starfsemi ársins til birtingar í í ársriti bandalagsins. Stjórn Bandalagsins er heimilt að setja nánari reglur um hvaða gögn þurfa að fylgja skýrslu.
14. grein
Aðildarfélögum er heimilt að stofna með sér sérsambönd og skulu þau vinna að sameiginlegum hagsmunamálum eftir því sem aðstæður leyfa. Lög og reglur skulu vera í samræmi við lög Bandalagsins.
15. grein
Sé árgjald aðildarfélags eigi greitt fyrir aðalfund missir félagið atkvæðisrétt sinn á fundinum. Vanskil á greiðslu árgjalds í tvö ár veitir stjórn Bandalagsins heimild til að víkja viðkomandi félagi úr Bandalaginu með samþykki aðalfundar. Aðalfundur getur vikið félagi úr Bandalaginu hafi það gerst brotlegt við lög eða samþykktir þess.
16. grein
Heimilt er að stofnsetja sjóði innan Bandalagsins, enda séu þeir ætlaðir til framgangs málefnum þess. Stjórnin setur reglur varðandi lán eða leigu Bandalagsins á eignum þess eða sameiginlegri eign Bandalagsfélaganna í vörslu Bandalagsins.
17. grein
Bandalagsfélög sem ferðast með leikrit til sýninga, skulu hafa samráð við leikfélög á fyrirhuguðum sýningarstöðum, svo sýningar þeirra skaði ekki viðkomandi félög. Óheimilt er að koma með sama verk til sýningar og verið er að æfa eða sýna á staðnum. Í sýningarferðum skulu Bandalagsfélögin aðstoða hvert annað eftir bestu getu.
18. grein
Hvert aðildarfélag hefur rétt til að skjóta öllum ágreiningsmálum sem rísa kunna í félaginu eða milli einstakra aðildarfélaga, til stjórnar Bandalagsins.
19. grein
Bandalagi íslenskra leikfélaga verður ekki slitið nema 4/5 atkvæðisbærra fulltrúa á aðalfundi séu því samþykkir. Stjórn Bandalagsins skal þó sitja áfram og boða til annars fundar 4 – 6 mánuðum síðar. Sé þá aftur samþykkt með 4/5 hluta atkvæða að slíta Bandalaginu skulu það heita lögleg félagsslit. Sé Bandalaginu þannig löglega slitið skulu allar eignir þess afhentar Menntamálaráðuneytinu til varðveislu og ávöxtunar.
Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru úr gildi fallin eldri lög Bandalags íslenskra leikfélaga.
Samþykkt á aðalfundi í Skagafirði 3. maí 2008.