Á síðasta degi febrúar, eða þann 28. frumsýndi, Freyvangsleikhúsið söngleikinn, Land míns föður, eftir Kjartan Ragnarsson við fallega sveiflutónlist eftir, Atla Heimi Sveinsson, og var ég undirritaður þeirrar ánægju aðnjótandi að vera á staðnum. Í verkinu er fjallað um hernámsárin á Íslandi, en sá tími var afar örlagaríkur í lífi þjóðarinnar og hafði áhrif og ýmsar afleiðingar fyrir margan einstaklinginn. 

Rauði þráðurinn í gegnum verkið er ungt par, Ársæll, eða, Sæli, sem er ungur glímukappi, sem Jóhannes Már Pétursson leikur, og kærustuna hans, Báru, sem Járnbrá Karítas Guðmundsdóttir leikur, og eru þau óttalega krúttaraleg, en þau trúlofast í upphafi leiksins. En það þarf að hafa í sig og á og til þess þarf peninga, og hugsanlega er smá gróðavon í þessu ástandi, svo að Þuríður móðir, Báru, sem Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir leikur, og gerir vel, opnar þvottahús á heimilinu fyrir hermennina. 

Pabbi, Báru og eiginmaður Þuríðar, Leifur, leikinn af Ingólfi Þórssyni, og gerir hann vel, er ekki par hrifinn af uppátækinu með þvotta hús og það þrætuepli. Sæli fer síðan til sjós því þar er aura von, en á meðan hann er á sjónum fellur, Bára fyrir ungum breskum offíser og verður ólétt og eru þau saman um tíma, en það breyttist eins og svo margt. Þetta var ekki óalgengt á þessum árum, en íslensku karlmennirnir þóttu heldur lúðalegir í samanburði við þessa flottu útlendinga sem voru svo miklir herramenn, og áttu því ekki roð í þá hjá kvenfólkinu. Margur kvenmaðurinn fékk á sig stimpil lauslætis á þessum tíma og voru gjarnan kallaðar, hórur. 

Verkið er ekki laust við pólitík þessa tíma og kemur stofnun lýðveldis íslands 17. júní 1944 m. a. við sögu. Í sýningunni taka þátt á sviði ekki færri en 29 leikarar auk fimm manna hljómsveitar. Og eins og gefur að skilja með allan þennan fjölda leikara, hefur leikstjórinn, Ólafur Jens Sigurðsson þurft í mörg horn að líta, en honum ferst leikstjórnin vel úr hendi og er sýningin áferðafalleg, einlæg og stutt í húmorinn. Það er magnað að það skuli takast að ná saman svona mörgu hæfileikaríku áhuga fólki til að taka þátt í leiksýningu, og eru leikararnir á öllum aldri og standa sig allir með hreinni prýði. Hér ganga hreinlega allir í takt, og held ég að það sé það sem segja þarf í stað þess að tína einstaka nöfn út. Og í svona stórri sýningu eru auðvitað fjöldi aðstoðarfólks á hliðarlínunni og þar skiluðu greinilega allir sínu. 

Hljómsveitina skipa þeir, Ingólfur Jóhannsson, Helgi Guðbergsson, Brynjólfur Brynjólfsson, Agnar Sigurðsson og Stefán Bogi Aðalsteinsson. Hljómsveitin var góð, en á köflum örlaði á ójafnvægi á milli hljómsveitar og söngs, en það er eitthvað sem er stillingaratriði og lagast. En söngur var góður og sums staðar skolli góður, og nefni ég þar, Jóhönnu Sigmarsdóttur sem leikur, Siggu. Um leikmynd sér, Þorsteinn Gíslason með aðstoð frá, Kristni Darra Þorsteinssyni og er hún vel hönnuð og þjónar vel verkinu. Í heild erum við að tala um góða vandaða sýningu þar sem allir standa sína plikt með stæl, og sýningin er alveg fyrirtaks kvöldskemmtun fyrir alla fjölskylduna. Nú er bara að drífa sig í Freyvangsleikhúsið.