Leikfélag Akureyrar hefur nú birt  dagskrá leikársins 2006-2007. Áfram er unnið eftir sömu stefnu og verið hefur og sérstök áhersla lögð á að ná ekki síður til yngri leikhúsgesta en þeirra sem eldri eru. Liðið leikár sló öll met er varða aðsókn og ljóst að LA er í mikilli sókn.
Leikfélag Akureyrar hefur nú birt  dagskrá leikársins 2006-2007. Áfram er unnið eftir sömu stefnu og verið hefur og sérstök áhersla lögð á að ná ekki síður til yngri leikhúsgesta en þeirra sem eldri eru. Liðið leikár sló öll met er varða aðsókn og ljóst að LA er í mikilli sókn. Sem fyrr einbeitir leikhúsið sér að uppsetningu nútímaverka og verða frumsýnd tvö ný erlend verk, Herra Kolbert og Svartur köttur, en þau eiga það sameiginlegt að hafa vakið athygli og hlotið lof gagnrýnenda þar sem þau hafa verið sýnd. Stærsta frumsýning vetrarins er á nýju íslensku leikriti sem Þorvaldur Þorsteinsson hefur skrifað fyrir leikhúsið og nefnist Lífið – notkunarreglur. Leiksýningin er samstarfsverkefni við Nemendaleikhús leiklistardeildar Listaháskólans og mun Kjartan Ragnarsson leikstýra.  Fyrir yngstu kynslóðina verður boðið upp á nýja og ferska uppsetningu á Karíusi og Baktusi. Í janúar verður haldið upp á 100 ára afmæli Samkomhússins og verður m.a. efnt til leiklesturs á Ævintýri á gönguför af því tilefni. Vinsælar sýningar frá síðustu leikárum snúa aftur, tekið verður á móti gestasýningum, farið verður í leikhúsferð til London og leikhúsmenntun unga fólksins verður sinnt í vetur hjá LA.
 
Herra Kolbert – “drepum hann og förum svo í göngutúr”

Herra Kolbert eftir David Gieselmann er spennuverk með húmor sem kemur á óvart. Verkið hefur farið víða síðan það var frumsýnt í Royal Court leikhúsinu í London árið 2000. Mörg framsæknustu leikhús Evrópu hafa sýnt verkið og hlotið lof fyrir. Herra Kolbert hefur einni verið sýnt víða í Bandaríkjunum og Ástralíu. Leikritið sameinar spennu og átök Hitchcocks, undarlegheit Pinters, fáránleika Ionescos og ómótstæðilegan húmor.
Hver er Herra Kolbert? Hver er með númer 26, sleppa chillíinu? Er Herra Kolbert í kistlinum á gólfinu? Steindauður? Hver var með hvítlauksbolognese með eggi? Ef Herra Kolbert er dauður, hver drap hann þá? Og hvernig kemur pizzusendillinn inn í þetta allt saman? Venjulegt matarboð hjá venjulegu fólki tekur óvænta stefnu og þegar kvöldið er liðið er allt breytt…
Þýðing: Bjarni Jónsson. Leikstjórn: Jón Páll Eyjólfsson, leikmynd og búningar: Íris Eggertsdóttir, lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson, tónlist: Hallur Ingólfsson. Leikarar: Edda Björg Eyjólfsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Gísli Pétur Hinriksson, Ólafur Steinn Ingunnarson og Unnur Ösp Stefánsdóttir. Frumsýnt 27. október
 
Karíus og Baktus  – Sígilt leikrit sem stenst tímans tönn. Grallaraleg tónlist í flutningi 200.000 naglbíta
Ófrýnilegu grallararnir Karíus og Baktus gera allt vitlaust á Akureyri. Höggva, berja, öskra og heimta í munninum á Jens, sem gefur þeim nóg af sætindum! Þeir eru svakalegir og skemmtilegir, hættulegir og hlægilegir í senn, svo sæluhrollur hríslast niður bakið á áhorfendum, ungum sem öldnum.  Sýningin er stutt, tekur um hálfa klukkustund í flutningi og tilvalin fyrir þá sem eru að kynnast töfrum leikhússins í fyrsta skipti.
Höfundur: Thorbjörn Egner, þýðing: Hulda Valtýsdóttir. Leikstjórn: Ástrós Gunnarsdóttir, leikmynd og búningar: Íris Eggertsdóttir, tónlistarflutningur: 200.000 naglbítar. Leikarar: Guðjón Davíð Karlsson og Ólafur Steinn Ingunnarson. Frumsýnt 23. september.
 
Svartur Köttur –  brjálæðislegt leikrit, fyndið og djarft
Þetta hófst allt með því að dauður köttur fannst á veginum – besti vinur Patreks í öllum heiminum. Hann leitar hefnda, María leitar að ástinni, allir leita að Patreki nema Davíð sem leitar að leið út úr klandrinu. Sagan er reifarakennd og fyndin, persónurnar heimskar en brjóstumkennanlegar,  umfjöllnarefnið áleitið og húmorinn flugbeittur. Svartur köttur var frumsýnt í Bretlandi fyrir fjórum árum þar sem það var valið gamanleikrit ársins af þarlendum gagnrýnendum og nú í vor var það frumsýnt á Broadway þar sem leikhúsunnendur halda ekki vatni. Meðal þess sem gagnrýnendur þar hafa sagt er: „Ímyndið ykkur Monty Python  í einni sæng með Quentin Tarantino“.
Martin McDonagh er í fremsta flokki ungra leikskálda heims um þessar mundir. Verk hans hafa verið sett upp um allan heim en íslenskir áhorfendur hafa barið þrjú verka hans augum, Fegurðardrottninguna frá Línakri (Borgarleikhús), Halta Billa (Þjóðleikhúsið) og Koddamanninn (Þjóðleikhúsið).  Svartur Köttur (The Liutenant of Inishmore) ber sterk höfundareinkenni McDonagh þó húmorinn sé fyrirferðarmeiri en áður. Verk sem enginn leikhúsunnandi ætti að láta framhjá sér fara.
Höfundur: Martin McDonagh. Þýðing: Hávar Sigurjónsson, leikstjórn: Magnús Geir Þórðarson, leikmynd og búningar: Filippía Elíasdóttir, lýsing: Þórður Orri Pétursson. Meðal leikara: Ívar Örn Sverrisson, Guðjón Davíð Karlsson, Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir, Ólafur Steinn Ingunnarson, Gísli Pétur Hinriksson og Þráinn Karlsson. Frumsýnt 20. janúar 2007 en þá verða 100 ár frá fyrstu sýningu í Samkomuhúsinu á Akureyri.
 
Lífið – notkunarreglur. Ævintýrið um okkur öll – fullt af hlýju, tónlist og leiftrandi húmor.
Nýtt leikrit eftir Þorvald Þorsteinsson.
Hvað var það nú aftur sem við áttum að gera við þetta blessaða líf? Erum við kannski að misskilja þetta allt saman? Eða er ástin ef til vill svarið sem allt snýst um? Litríkur hópur fólks stendur frammi fyrir áleitnum spurningum um framtíðina og eigin hlutverk í lífinu. Spurningunum sem enginn virðist geta svarað svo vel sé, enda fylgir sjaldnast bæklingur með börnunum sem fæðast í þennan heim. Hér er fjallað um sundurleitan samtíma og óvissa framtíð á svo manneskjulegum og hrífandi nótum að allir verða ríkari á eftir.
Sýningin er unnin í samvinnu við útskriftarárgang leiklistardeildar Listaháskóla Íslands og er lokaverkefni þeirra við skólann. Tveir öflugustu leikhúsmenn þjóðarinnar, Þorvaldur Þorsteinsson leikskáld og Kjartan Ragnarsson leikstjóri, voru fengnir til að leiða vinnuna með hinum ungu leikurum. Meðal rómaðra verka Þorvaldar eru And Björk of course, Blíðfinnur og Skilaboðaskjóðan. Kjartan er einn reyndasti leikstjóri landsins og meðal eftirminnilegra sýninga hans eru Sjálfstætt fólk, Þrúgur reiðinnar og Land míns föður. Þetta er fyrsta sýning beggja fyrir LA.
Leikstjórn: Kjartan Ragnarsson.  Leikarar: Útskriftarárgangur Leiklistardeildar og leikhópur LA.
Sett upp í samstarfi við Leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Frumsýnt 16. mars 2007.
 
la0607.pngSýningar frá fyrri árum og gestasýningar
Auk fjögurra nýrra frumsýninga verður boðið upp á fjórar aðrar leiksýningar auk fjölbreytilegrar annarrar starfsemi.
 
Leikárið hefst með aukasýningum á Litlu hryllingsbúðinni sem sýnd var við miklar vinsældir í vor og hlaut einróma lof. Þá komust færri að en vildu og til að mæta fjölda áskorana hefur tekist að bæta við aukasýningum fyrstu þrjár helgarnar í september. Miðarnir rjúka út og því hver að verða síðastur að tryggja sér miða á þessa vinsælu sýningu.
 
Akureyringurinn Kristján Ingimarsson hefur á undanförnum árum ferðast um allan heim að sýna gamanleik sinn Mike Attack. Verkið verður sýnt á vegum LA á Akureyri í október. Getur hljóðnemi fengið fullnægingu? Já auðvitað það þarf bara að strjúka honum fram og til baka í statífinu og þá ískrar hann af ánægju. Verkið verður sýnt í Rýminu í október.
 
Í nóvember 2004 var leikritið Ausa Steinberg eftir Lee Hall frumsýnt á Akureyri. Gagnrýnendur lofuðu verkið og ekki síst frammistöðu Ilmar Kristjánsdóttur og var hún m.a. tilnefnd til Grímunnar fyrir leik sinn. Sýningin er var sett upp í samstarfi við Borgarleikhúsið og var einnig sýnd þar. Ausa snýr nú aftur til Akureyrar og nú í nýjum búningi. Hún verður nú sýnd í Akureyrarkirkju í Dymbilviku áður en hún heldur í leikferð um landið. Í Ausu birtist einlæg, falleg en oft drepfyndin sýn níu ára barns á lífið sem hún fær ekki að lifa. Ausa sér tilveruna í öðru ljósi en við flest og snertir nýja strengi hjá áhorfendum. Leikstjóri er María Reyndal.
 
Í maí mun LA taka á móti gestasýningu. Sú nýbreytni er nú viðhöfð að í stað þess að ákveða fyrirfram hvaða sýning verður á boðstólum verður ákvörðun ekki tekin fyrr en síðar í vetur þegar flestar frumsýningar vetrarins hafa verið frumsýndar. Þannig stefnir LA að því að bjóða upp á það nýjasta og ferskasta og það sem við teljum mest spennandi fyrir leikhúsgesti norðan heiða. Stefnt er að því að þetta verði fastur liður í starfseminni og kallast óvissuferð í leikhúsið.
 
 
 
Unga fólkið – mikil fjölgun í hópi yngri leikhúsgesta
Á síðustu tveimur árum hefur mikil áhersla verið lögð á að laða nýja og yngri leikhúsgesti að leikhúsinu. Hefur verkefnaval og val á listamönnum tekið mið af því. Að auki tók LA og Landsbankinn upp samstarf fyrir tveimur árum til að vinna sameiginlega að þessu marki. Landsbankinn greiðir nú eins og síðustu tvö ár, niður áskriftarkort fyrir námsmenn og alla sem eru yngri en 25 ára. Með þessu á að vera tryggt að allir geti “verið flottir á því” og verið fastagestir í leikhúsinu. Er skemmst frá því að segja að fjöldi yngri leikhúsgesta hefur margfaldast á tímabilinu og nú er meðalaldur kortagesta og almennra leikhúsgesta hjá LA undir 35 árum, sem er mjög óvenjulegt í leikhúsum í Evrópu og hér á landi. Verð á áskriftarkorti sem gildir á fjórar sýningar nú er aðeins 3.950 kr.
 
LA stendur fyrir ýmissi annarri starfsemi sem beint er að unga fólkinu. Reglulega er boðið upp á opin leiklistarnámskeið, við tökum á móti skólum, leikskólum og hópum í heimsóknir í leikhúsið og síðast en ekki síst stendur LA fyrir valgreinakennslu í leiklist í samstarfi við Grunnskóla Akureyrar. Valgreinakennslan hófst sem tilraunaverkefni fyrir tveimur árum en hefur nú fest sig í sessi. Nemendur geta þá valið leiklist sem valgrein og koma í leikhúsið einu sinni í viku í heilt misseri. Þar eru þau frædd um lífið í leikhúsinu og ferlið frá leikriti á blaði að sýningu á sviði.
 
100 ára afmæli Samkomuhússins
Leikhúsið á Akureyri, Samkomuhúsið var vígt 23. desember 1906 og fyrsta sýningin í húsinu var 20. janúar 1907. Sérstök hátíðarfrumsýning verður á leikritinu Svörtum ketti af þessu tilefni akkúrat 100 árum eftir fyrstu frumsýningu í húsinu. Fleira verður gert til hátíðarbrigða en meðal annars verður efnt til leiklesturs á Ævintýri á gönguför sem var fyrsta sýningin í húsinu. Miðaverð verður það sama og fyrir 100 árum, 75 aurar í sal og 25 aurar á svölum.
 
Leikhúsferð til London – beint frá Akureyri
Í byrjun október verður farið í sérstaka leikhúsferð til London, mekku leiklistar í Evrópu. Flogið verður beint frá Akureyrarflugvelli á fimmtudegi 5. okt og komið til baka á sunnudegi. Gist verður á Radison SAS hótelinu í hjarta borgarinnar. Farið verður á tvær leiksýningar í London og einnig býðst þátttakendum að fara í leiðsöguferð um London. Farið verður á hinn rómaða söngleik, Billy Elliot og aðra sýningu sem síðar verður ákveðið hver er. Hópurinn fer saman út að borða eitt kvöldið og að auki fá allir nægan tíma til að kynna sér London á eigin spýtur. Ferðin er skipulögð af Expressferðum í samstarfi við LA en leiðsögumaður í leikhúsferðinni verður Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri LA. Miðaverð er 54.900 en korthafar LA fá 5.000 kr afslátt af ferðinni.
 
Áskriftarkort
Að venju býður LA upp á áskriftarkort. Þrjár sýningar eru fastar í kortinu, Herra Kolbert, Svartur köttur og Lífið – notkunarreglur. Sem fjórðu sýningu í kortum geta korthafar valið milli hinna fimm sýninga vetrarins, Karíus og Baktus, Mike Attack, Ausa Steinberg og Óvissuferð. Verð áskriftarkortsins er 7.900 kr en Landsbankinn niðurgreiðir áskriftarkort fyrir námsmenn og alla yngri en 25 ára. Þeim býðst kortið því á hálfvirði og greiða aðeins 3.950 kr fyrir fjórar sýningar.