ImageFöstudaginn 24. Mars frumsýnir LA stórsýningu vetrarins, söngleikinn ástsæla, Litla hryllingsbúðin. Verkið sló í gegn snemma á níunda áratugnum þegar það var frumsýnt og hefur notið mikilla vinsælda síðan. Í aðalhlutverkum eru Guðjón Davíð Karlsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Andrea Gylfadóttir. Leikstjóri er Magnús Geir Þórðarson.

Litla hryllingsbúðin hefur verið sýnd í leikhúsum um allan heim. Enda er sagan krassandi, persónurnar heillandi, tónlistin grípandi og húmorinn allsráðandi. Þetta er í þriðja skipti sem verkið er sett upp í atvinnuleikhúsi á Íslandi en Hitt leikhúsið setti verkið upp í Íslensku óperunni árið 1984 og Borgarleikhúsið árið 1998. Kvikmynd var gerð upp úr söngleiknum árið 1988 og skartaði hún m.a. Steve Martin í hlutverki tannlæknisins. 

Baldur eyðir fábrotnum dögunum í blómabúðinni hans Markúsar. Hann lætur sig dreyma um ástir Auðar sem er vinnur með honum í búðinni. Dag einn, rétt fyrir sólsetur uppgötvar Baldur undarlega plöntu sem hann nefnir Auði II í höfuðið á sinni heittelskuðu. Áður en langt um líður kemur í ljós að plantan hefur undarlega eiginleika og gríðalega matarlyst. Og hún vex og vex. Plantan vekur óskipta athygli og viðskiptin blómstra sem aldrei fyrr. Inn í söguna blandast svo kærasti Auðar, tannlæknir með kvalalosta, og atburðarrásin tekur óvænta stefnu… Græðgin er eitt meginstef verksins og ljóst að hinir saklausu geta legið vel við höggi þegar freistingar eru annars vegar.

ImageGeisladiskur með tónlistinni kemur í verslanir á morgun, mánudaginn 20. mars. Hann hefur að geyma 21 lag og eru þar á meðal lög sem komu ekki út á fyrri íslensku útgáfunum af Litlu hryllingsbúðinni. Útgefandi er 2112 en Kristján Edelstein stjórnaði upptökum en hann er jafnframt tónlistarstjóri sýningarinnar. Lagið Gemmér sem Andrea Gylfadóttir flytur hefur notið vinsælda undanfarnar vikur á öldum ljósvakans.

Enn er í gangi frábært forsölutilboð: Þeir sem kaupa miða (tvo eða fleiri) í forsölu fá geisladiskinn með tónlistinni úr sýningunni með í kaupbæti á meðan birgðir endast. Miðasala er á heimasíðu leikhússins, www.leikfelag.is eða í síma 4 600 200.

Söngleikur eftir Howard Ashman.
Tónlist: Alan Menken.
Byggt á samnefndri kvikmynd Roger Corman.
Handrit: Charles Griffith.
Þýðing á bundnu máli: Megas.
Þýðing á lausu máli: Einar Kárason

Leikstjórn: Magnús Geir Þórðarson.
Leikmynd og búningar: Halla Gunnarsdóttir.
Tónlistarstjórn: Kristján Edelstein.
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson.
Danshöfundur: Ástrós Gunnarsdóttir

Leikarar: Andrea Gylfadóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Þráinn Karlsson, Álfrún Helga Örnólfsdótir, Esther Talía Casey, Ardís Ólöf Víkingsdóttir og Guðjón Þorsteinn Pálmarsson.

Sýningin er sett upp af Leikfélagi Akureyrar í samstarfi við Íslensku óperuna. Samstarfsaðilar eru Norðurorka, KEA Hótel, Olís og Flugfélag Íslands.