Gamanleikritið Fullkomið brúðkaup eftir Robin Hawdon verður frumsýnt hjá Leikfélagi Akureyrar fimmtudaginn 20. október. Hér er um drepfyndinn og rómantískan gamanleik að ræða, hann er hraður, fullur af misskilningi, framhjáhöldum og ást. Leikritið er eftir sama höfund og skrifaði leikgerðina á Sex í sveit sem er ein vinsælasta sýning LR frá upphafi. Leikritið sver sig í aðra röndina við sígildan farsa en einnig á leikritið margt sammerkt með breskum rómantískum gamanmyndum eins og Four Weddings and a Funeral, About a Boy, Notting Hill ofl. Leikstjóri er Magnús Geir Þórðarson.
Leikritið segir frá ungu fólki sem er að glíma við ástina, verða ástfangið, hætta að vera ástfangið og að verða ástfangið af þeim sem þau mega ekki vera ástfangin af. Brúðkaupsdagurinn er runninn upp. Brúðguminn vaknar með konu sér við hlið. Hann hefur aldrei séð hana fyrr. Hver er þessi kona? Hvað gerðist kvöldið áður? Hann flækist inní atburðarás sem hann ræður ekkert við, brúðurin á leiðinni herbergið í rúst, nakin kona í rúminu og þá er bankað…
Fullkomið brúðkaup verður frumsýnt þann 20. október. Mikill áhugi virðist fyrir sýningunni, því þegar er orðið uppselt á fyrstu tíu sýningar verksins. Þýðandi er Örn Árnason og leikstjóri Magnús Geir Þórðarson. Frosti Friðriksson hannar leikmynd og búninga en ljósahönnun er í höndum Björns Bergsteins Guðmundssonar. Leikarar eru: Álfrún Örnólfsdóttir, Esther Thalia Casey, Guðjón Davíð Karlsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Maríanna Clara Luthersdóttir og Þráinn Karlsson.
Nánari upplýsingar veitir Magnús Geir Þórðarson, leikhússtóri LA. magnus@leikfelag.is , gsm: 863 8630, beinn sími: 4 600 205.