Þjóðleikhúsið stendur fyrir kynningu á Sædýrasafninu, nýju leikriti eftir frönsku skáldkonuna Marie Darrieussecq, í Leikhúskjallaranum laugardaginn 21. apríl kl. 15:00. Dagskráin er einn af viðburðum í Viku bókarinnar og liður í frönsku menningarkynningunni Pourquoi Pas Franskt vor á Íslandi.
Sædýrasafnið er nýtt leikrit sem hin þekkta franska skáldkona Marie Darrieussecq hefur skrifað sérstaklega fyrir Þjóðleikhúsið og verður sýnt árið 2008. Marie Darrieussecq sló í gegn með fyrstu skáldsögu sinni, Gyltingu, árið 1996. Skáldsagan varð metsölubók í Frakklandi og hefur verið þýdd á fjölda tungumála, og kom meðal annars út á íslensku. Darrieussecq hefur sent frá sér nokkar skáldsögur og smásagnasafn, en Sædýrasafnið er fyrsta leikrit hennar.
Á kynningunni 21. apríl verður fjallað um höfundinn og leikritið á íslensku, því næst munu leikkonurnar Brynhildur Guðjónsdóttir og Margrét Vilhjálmsdóttir lesa úr verkum höfundar á ensku og íslensku, og að lokum verða pallborðsumræður á ensku með þátttöku Marie Darrieussecq og Arthur Nauzyciel, leikstjóra væntanlegrar sýningar. Melkorka Tekla Ólafsdóttir stýrir umræðum. Rætt verður meðal annars um höfundarverk Darrieussecq, Sædýrasafnið og listrænar áherslur höfundar og leikstjóra. Dagskráin tekur um klukkustund.
Í Gyltingu er sögð saga konu sem breytist í gyltu, að því er virðist undir áhrifum frá því hvernig aðrir, einkum karlmenn, koma fram við hana. Gylting og Sædýrasafnið eiga það sameiginlegt að gerast í nálægri framtíð í kunnuglegu umhverfi, og sýna okkur heim sem gæti hugsanlega orðið okkar veruleiki, ef við spornum ekki við óheillavænlegri þróun. En um leið einkennast þessi verk af óbeisluðu hugarflugi og óvenjulegri kímnigáfu. Í Sædýrasafninu kynnumst við tveimur pörum, sem virðast eiga fátt sameiginlegt, en þurfa skyndilega að dveljast saman í miklu návígi í húsi úti í sveit, þar sem annað parið hefur komið upp sædýrasafni. Í landinu ríkir einhvers konar órætt stríðsástand, á yfirborðinu virðist allt vera í lagi en undir niðri býr mikil ógn.
Íslenska þýðingu Sædýrasafnsins gerir Sjón, en ýmsir aðrir íslenskir listamenn sem þekktir eru fyrir störf sín utan leikhússins munu koma að uppsetningunni, auk leikara Þjóðleikhússins.
Þess má geta að leikstjóri hinnar væntanlegu sýningar, Arthur Nauzyciel, var nýlega ráðinn leikhússtjóri Orléans leikhússins í Frakklandi, eða Le Centre Dramatique National d'Orléans. Leikhúsið var stofnað árið 1992 af franska menningarmálaráðuneytinu og Orléansborg. Forverar Nauzyciels í starfi eru Stéphane Braunschweig og Olivier Py, sem eru meðal þekktustu leikstjóra Frakklands og stýra nú hvor um sig þjóðleikhúsinu í Strasbourg og Odéon þjóðleikhúsinu.
Aðgangur að dagskránni er ókeypis og öllum opinn.
{mos_fb_discuss:3}