ImageÓperan Öskubuska (La Cenerentola) eftir Rossini verður frumsýnd í Íslensku óperunni 5. febrúar 2006. Texti óperunnar er eftir Jacopo Ferretti og var Öskubuska frumsýnd í Róm 25. janúar 1817. Öskubuska er reglulega á fjölum helstu óperuhúsa víðsvegar um heiminn, en þetta er í fyrsta skipti sem hún er sett upp hér á landi.

Listrænir stjórnendur og einsöngvarar
Leikstjóri er Paul Suter og sviðs – og búningahönnuður er Season Chiu. Hljómsveitarstjóri er Kurt Kopecky. Hlutverk Öskubusku syngur Sesselja Kristjánsdóttir og hlutverk prinsins Ramiro syngur Garðar Thór Cortes. Stjúpfaðirinn Don Magnifico er sunginn af Davíð Ólafssyni og hlutverk stjúpdætranna eru sungin af Hlín Pétursdóttur sem Clorinda og Önnu Margréti Óskarsdóttur sem Tisbe. Einar Guðmundsson syngur hlutverk heimspekingsins Alidoro sem er lærimeistari prinsins og Bergþór Pálsson syngur hlutverk Dandini, þjón prinsins.

Söguþráður í stuttu máli
Söguþráður óperunnar byggir á ævintýrinu velþekkta um Öskubusku. Í óperunni er það reyndar vondi stjúpfaðirinn Don Magnifico og hégómlegu dætur hans tvær, Clorinda og Tisbe, sem gera Öskubusku lífið leitt. Það er svo heimspekingurinn Alidoro sem kemur í stað álfkonunnar góðu og sér til þess að Öskubuska komist á dansleikinn í höllinni. Eins og í mörgum góðum óperum eru það dulargervin sem gegna mikilvægu hlutverki í óperunni Öskubusku. Prinsinn Ramiro og þjónninn Dandini hafa skipti á hlutverkum. Stjúpsysturnar Clorinda og Tisbe eru því uppteknar af því að koma sér í mjúkinn hjá þjóninum, sem er dulbúinn sem prinsinn, á meðan Öskubuska og hinn raunverulegi prins, dulbúinn sem þjónn, fella hugi saman. Á dansleiknum í höllinni lætur Öskubuska prinsinn fá annað af tveimur armböndum sínum og segir honum að leita sig uppi og ef hann elski sig enn, þá verði hún hans. Þegar prinsinn finnur Öskubusku kemst upp hver er hinn sanni prins og verða Don Magnifico og dætur hans æf af reiði, þegar hann tilkynnir að Öskubuska sé hans útvalda.  Þau vísa henni á bug þegar hún reynir að kveðja þau. Allt fer þó vel að lokum og Don Magnifico og dætur hans sjá að sér og leita fyrirgefningar Öskubusku á öllu því illa sem þau hafa gert henni. Öskubuska fyrirgefur þeim því hún óskar þess eins að deila hamingju sinni með öðrum.