Kontrabassinn lítilLeikfélag Hafnarfjarðar sýnir um þessar mundir einleikinn Kontrabassann eftir Patrick Süskind í þýðingu Hafliða Arngrímssonar og Kjartans Óskarssonar í leikstjórn Gunnars B. Gunnarssonar.

Greinarhöfundur tók hús á þeim Gunnari B. Guðmundssyni leikstjóra og Halldóri Magnússyni stórleikara eitt síðkvöld í nýliðinni viku þar sem þeir voru við æfingar á Kontrabassanum eftir Patrick Süskind sem Leikfélag Hafnarfjarðar frumsýndi síðastliðinn laugardag. Þeir fengust með lagni til þess að setjast niður og svara nokkrum spurningum yfir kaffibolla.

Mín fyrsta spurning er hvað hefði komið til að þeir völdu að setja upp Kontrabassann. Gunnar er fljótur til svars enda ræðinn með afbrigðum.

„Tja, Tolli kom nú eiginlega fyrst til mín með hugmyndina og spurði hvort ég hefði áhuga. Hann hafði gengið með þetta í maganum í dálítinn tíma. Þetta var búið að vera draumur hjá mér í mörg ár svo hann kom þægilega aftan að mér með þetta. Ég er mikill aðdáandi Suskind, hef lesið öll verkin hans, sem reyndar er frekar auðvelt því verkin eru nú heldur fá“.  Svo glotta þeir báðir í kampinn.

En hvað skyldi það hafa verið í verkum Suskind sem höfðaði til þeirra?

Kontrabassinn I

Jú, þau fjalla öll um einmanaleika, vonir og þrár. Nú er sem undirritaður heyri í kátu fjallastelpunum í dömubinda auglýsingunum koma valhoppandi hönd í hönd yfir engjarnar. „Þetta eru allt helvítis aumingjar, vælukjóar og kellingar“. Það er bassaleikarinn sjálfur sem rífur plötuna af fóninum og rekur dömubinda kellingarnar á flótta eins og styggan hænsnahóp. Gunni hlær við. „Enda var Halldór alveg týpan í þetta, smellpassaði í hlutverkið“.

„En annars þá fengum við þessa hugmynd, lögðum hana fyrir stjórn og þetta var sett í gang umsvifalaust. Þetta hentaði afar vel til þess að brúa bilið meðan Lalli [Lárus Vilhjálmsson, höfundur Þið eruð hérna] er að undirbúa næsta stykki sem sett verður upp fyrir jól. Einnig hentaði leikrýmið sem við höfum til umráða alveg sérlega vel. Eins og kunnugt er hefur leikfélaginu verið þröngur stakkur sniðinn undanfarin ár“.
Hér geispa allir vel og lengi meðan húsnæðisræðan gamalkunna gengur um garð.

En hvernig var síðan ákveðið að nálgast verkið? Það er Gunnar sem leiðir okkur í allan sannleik um það.

„Jú, verkið er langt og margslungið svo við ákváðum að einblína á ákveðna þætti umfram aðra. Fundum fleti sem okkur þóttu vera meginatriði verksins og unnum með þá. Vinnuferlið var þannig að við settumst fyrst niður og mótuðum karakterinn. Síðan tók bara hefðbundið æfingaferli við. Þetta er í fyrsta skipti sem Halldór leikur einleik og einnig í fyrsta skiptið sem ég leikstýri þannig verki“.

Hvernig skyldi svo Halldóri finnast að leika í einleik samanborið við önnur verk sem hann hefur tekið þátt í?

„Það er frekar skrýtið því maður hefur ekkert feedback frá öðrum leikurum. Þetta er eintal og mikið kraðak af texta, allt flutt án þess að hafa neinskonar stuðning“.

Og þú ert ekkert hræddur um að frjósa eða klikka á texta og enginn til þess að „beila“ þig út?

„Ekki þangað til núna, nei“.

Halldór kveikir sér hálf taugaveiklaður í sígó. Viðtalið er stoppað stutta stund meðan leikstjórinn stappar í hann stálinu.

„Annars hef ég nú svo sem mótleikara. Depill gullfiskur, kom inn strax í byrjun æfingatímabilsins. Hann er búinn að vera í strangri þjálfun síðan. Búið að þjálfa hann til þess að gera allskonar kúnstir. Þó hefur ekki tekist ennþá að fá hann til þess að stökkva í gegnum logandi hring en það skal hafast fyrir frumsýningu“. Gjóar augunum taugaveiklað á gullfiskinn sem gónir á móti og gapir sakleysislega.
Kontrabassinn IIJæja drengir, og hvernig finnst ykkur svo að setja upp einleik?

„Mjög áhugavert. Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt og krefjandi. Einn stærsti munurinn er að samspilið er ekki við eins marga. Það verða ekki eins litskrúðugar hugmyndir sem hent er á milli. Við erum búnir að vera þrír saman meginhlutann, við og Hilmar ljósameistari og leikmynda-smiður í stað stórs hóps með flæði í allar áttir. Við höfum verið afslappaðir og bara leyft þessu að fæðast, rætt hlutina og prófað allskonar útfærslur. Svona eiginlega þróað okkur inn í það sem þetta er orðið núna. Því er samt ekki að neita að oft hefur þetta verið svolítið snúið þar sem það eru ekki merktar senuskiptingar í verkinu o.þ.h.“

Nú er komið að því að veiða eitthvað krassandi upp úr þeim eftir allan fagurgalann. „Hefur engin togstreita verið á milli ykkar þegar samstarfið er svona náið?

„Nei nei, þetta er mjög einfalt, ég ræð öllu“.  Afgreiðir Gunni stutt og laggott af alkunnri hógværð. „Við höfum unnið mikið saman áður, til dæmis við Koss Köngulóarkonunnar“.

Og enn er rembst eins og rjúpan við staurinn. „En þú Halldór, nú ert þú nakinn stóran part af leikritinu. Hvernig fer öll þessi nekt í þig?

Halldór yptir brúnum og ekki laust við hann fari ofurlítið hjá sér, lítur útundan sér á Gunna sem glottir á móti. Greinilegt að þeir eru ekki á eitt sáttir um nektina.

„Tja, ekki truflað mig neitt að ráði. Hélt þetta yrði skrýtnara… en annars hef ég ekkert að fela. Það hafa reyndar ákveðnir aðilar viljað ganga enn lengra í þessa átt, allt í þágu listarinnar auðvitað“.

Nú tekst Halldóri að laða fram undurfagra tóna úr hljóðfærinu í sýningunni, skyldi hann hafa lært eitthvað fyrir sér í þessum efnum?

„Já, við fengum tilsögn hjá reyndum bassaleikara úti í bæ. Nú get ég spilað Silungakvintettinn eftir Schubert með hvorri hendinni sem vera skal“.

En hvernig er svo sýningarplanið?

„Planið er að hafa sýningarfjöldann takmarkaðan og sýna frekar þétt. Svo það er um að gera að bíða ekki með það að eilífu að fara að sjá sýninguna“.

Er ætlunin að fylgja þessu eftir með öðrum frægum verkum heimsbókmenntanna?

„No comment“, segja þeir báðir og krækja saman fingrum.

Nú fer að líða að lokum viðtalsins, eitthvað sem þeir vilja bæta við að lokum?

„Já, við viljum bæta því við að það er stefnan að fara með þetta „on the road“ ef svo má segja.  Ætlum að reyna að sýna þetta úti á landi, í Reykjavík og öðrum sjávarþorpum. Svo höfum við einnig fengið tilboð frá Indlandi um sýningar. Að ógleymdri þeirri snilldarhugmynd að hljóðeinangra gamalt rúgbrauð sem okkur áskotnaðist og setja upp farandssýningu í beinni samkeppni við brúðubílinn.  Það var hugmyndin að kalla það Bassaboxið. Það er kannski stærsti gallinn við þá hugmynd að þá þyrfti að skipta bassanum út fyrir fiðlu, hann kæmist einfaldlega ekki fyrir. Þá mætti etv. leysa stærðarmuninn með því að hafa hana töluvert mikið aftar en leikarann til þess að blekkja augað! …“

Hér leysist umræðan upp í flóknar pælingar um útfæringar á bassaboxinu svo höfundur sér þann kostinn vænstan að þakka pent fyrir sig og laumast út í nóttina. Það er greinilegt að það liggur mikil vinna að baki þessu verki og óbilandi áhugi á leiklistinni. Það verður því spennandi að sjá hvernig til tekst en eftir að hafa verið viðstaddur æfingar og rætt við þá félaga hvetur undirritaður lesendur heilshugar til þess að úthluta einni kvöldstund í að hnýsast í sálarlíf kontrabassans.

IBJ