Þjóðleikhúsið frumsýnir þann 26. september í Kassanum nýtt leikrit eftir Hallgrím Helgason í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur.
Skáldsaga Hallgríms Helgasonar Konan við 1000° vakti á sínum tíma mikla athygli og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Hún hefur nú verið þýdd á níu tungumál og hvarvetna hlotið góða dóma og viðtökur.Herbjörg María Björnsson átti viðburðaríka daga. Frá bernsku í Breiðafirði til stríðsloka í Berlín, frá kvöldverði á Bessastöðum til barnsmissis í Buenos Aires… og varð á endanum útlagi í eigin landi, í bílskúr í austurbæ Reykjavíkur.
Sagan byggir að hluta til á sönnum atburðum en rétt eins og skáldsagan tilheyrir leikgerðin skáldskapnum fyrst og fremst.
Þær Guðrún Snæfríður Gísladóttir og Elma Stefanía Ágústsdóttir fara með hlutverk Herbjargar Maríu, en aðrir leikarar í sýningunni eru Snorri Engilbertsson, Baldur Trausti Hreinsson, Edda Arnljótsdóttir, Pálmi Gestsson og Edda Björg Eyjólfsdóttir.
Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Leikmynd: Eva Signý Berger. Dramatúrg: Símon Birgisson. Búningar: Agnieszka Baranowska. Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson. Tónlist: Tryggvi M. Baldvinsson. Hljóðmynd: Einar Sv. Tryggvason, Kristinn Gauti Einarsson og Tryggvi M. Baldvinsson. Leikgerð: Hallgrímur Helgason í samvinnu við Símon Birgisson og Unu Þorleifsdóttur.