Leikritið Konan áður hefst á stórri spurningu þegar fjölskyldufaðirinn Frank mætir fortíð sinni í dyragættinni. Fyrir utan stendur kona, komin til að krefja hann um gamalt loforð því hún er konan sem hann sagðist alltaf ætla að elska. Þjóðleikhúsið frumsýnir verkið á Smíðaverkstæðinu þann 16. nóvember nk. í leikstjórn Hafliða Arngrímssonar.
Leikritið Konan áður er marglaga sviðsverk, óvenjuleg ástarsaga, hlaðin þrúgandi spennu en þó krydduð með heilmiklum húmor er annars hægt að taka þá manneskju alvarlega sem birtist svona á tröppunum eftir 24 ár. Þetta er samtímaverk um venjulegt fólk í harla óvenjulegum aðstæðum. Gömul loforð geta dregið dilk á eftir sér og hugmyndin um eignaréttinn tekur á sig ýmsar myndir í þessu verki þar sem höfundurinn veltir upp fjölmörgum spurningum um hvaða tilkall við gerum hvert til annars.
Schimmelpfennig leitar víða fanga í verkum sínum en hann hefur meðal annars sagst vera undir töluverðum áhrifum frá kvikmyndum, einkum frönskum og ítölskum. Í Konunni áður eru til að mynda gerðar athyglisverðar tilraunir með tíma. Leikhúsið er augnabliksins en sú hugmynd er víkkuð út á forvitnilegan hátt í verkinu sem leikur markvisst með tilfinningu áhorfenda fyrir fortíð og nútíð. Úr verður eftirminnileg saga af ást og grimmd, vonum og þráhyggju sem hefur býsna afdrifaríkar afleiðingar.
Í vetur helgar Þjóðleikhúsið Smíðaverkstæðið erlendri nútímaleikritun, og þrjú ný erlend leikrit frá Þýskalandi og Frakklandi verða sett þar á svið. Í kjölfar Konunnar áður fylgir Vígaguðinn eftir hina heimsþekktu frönsku skáldkonu Yasminu Reza í janúar, og í apríl sýnum við Þann ljóta eftir annað þekkt þýskt leikskáld, Marius von Mayenburg. Stígur Steinþórsson hefur hannað leikmynd sem mun þjóna öllum þessum þremur sýningum.
Leikarar í verkinu Konan áður eru Baldur Trausti Hreinsson, Edda Arnljótsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Þórunn Erna Clausen og Vignir Rafn Valþórsson. Leikmynd og búninga hannar Stígur Steinþórsson en lýsingu Hörður Ágústsson.
Sýningin tekur um það bil eina og hálfa klukkustund. Ekkert hlé.
{mos_fb_discuss:2}