Á kvennréttindadaginn, þann 19. júní næstkomandi, verður einleikurinn Kona Einsömul eftir leiklistarfrömuðinn Dario Fo og konu hans Franca Rame í þýðingu Aldísar Davíðsdóttur frumsýndur. Aldís fer einnig með einleik undir leikstjórn Guðjóns Þorsteins Pálmarsonar. Verkið tekur á réttindum kvenna á gamansaman hátt þar sem gert er grín af yfirgangssemi karlmanna og því hvernig konur eiga til að láta kúga sig.

Einleikurinn fjallar um konuna Maríu og hvernig líf hennar breytist skyndilega þegar hún eignast nágrannakonu sem flytur í íbúðina á móti henni. Á milli glugga deilir hún með henni hversu æðislegt líf hennar er en brátt kemur í ljós að ekki er allt með feldu. María er læst inni af manninum sínum og undarlegar persónur, hlutverk og lifnaðarhættir innan heimilisins koma upp á yfirborðið. María tekur til sinna ráða með hjálp nágrannakonunnar þar sem hún reynir að finna lausn á þeirri vandamálasúpu sem hún er sokkin til botns í.

Aðeins verða þrjár sýningar á verkinu. Þær verða þann 19., 20. og 21. júní kl. 20:00 í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði. Miðasala Gaflaraleikhússins er opin alla virka daga frá 16.00 til 18.00. Sími miðasölu er 565-5900 og sími í hópasölu er 8607481. Einnig er hægt að panta miða á midasala@gaflaraleikhusid.is

{mos_fb_discuss:2}