Kómedíuleikhúsið býður upp á enn eina frumsýninguna á nýju íslensku leikverki föstudaginn 23. mars nk. Það heitir Náströnd – Skáldið á Þröm og er alþýðlegt leikrit um alþýðuskáldið Magnús Hj. Magnússon, betur þekktan sem skáldið á Þröm, en hann var fyrirmynd Halldórs Kiljan Laxness að Ólafi Kárasyni í Heimsljósi. Verkið verður frumsýnt á söguslóðum skáldsins á Suðureyri. Höfundar eru Ársæll Níelsson og Elfar Logi Hannesson, Ársæll leikur en Elfar Logi leikstýrir.

Alþýðuskáldið Magnús Hj. Magnússon lifði engu venjulegu lífi og sjaldan var það neitt dans á rósum. Hann ritaði dagbækur frá unga aldri þar sem hann greinir nákvæmlega frá sorg og gleði í sínu lífi sem og grenir frá ýmsum viðburðum úr daglega lífinu. Strax í æsku urðu foreldrar hans að láta hann frá sér og þar með hófst þrautarganga ljósvíkingsins sem tók aldrei enda. Leikritið Náströnd Skáldið á Þröm er byggt á dagbókunum og er 99% textans eftir Magnús Hj. Magnússon.

Búninga og leikmynd gerir Marsbil G. Kristjánsdóttir, höfundur tónlistar er Jóhann Friðgeir Jóhannsson og ljósahönnuður er Jóhann Daníel Daníelsson.

Náströnd Skáldið á Þröm er 26. uppfærsla Kómedíuleikhússins sem er í dag með elstu starfandi atvinnuleikhópa landsins. Kómedíuleikhúsið fangar í ár sínu 15 ári og er leikurinn því sérstakur afmælisleikur Kómedíu. Athygli er vakin á því að Náströnd Skáldið á Þröm verður aðeins sýnt í takmarkaðan tíma. Önnur sýning verður daginn eftir laugardaginn 24. mars og loks verða tvær sýningar helgina eftir. Allar sýningarnar verða í Félagsheimilinu á Suðureyri.

{mos_fb_discuss:2}