Lost Watch í samstarfi við Miðnætti og Tjarnarbíó frumsýnir KATE, gamanleik um íslenskt fjölskyldu- og herstöðvalíf í seinni heimsstyrjöldinni í Reykjavík.
Ísland, 1940. Bretarnir koma!
Þegar 25.000 breskir hermenn lenda í Reykjavík og hertaka landið, hafa íslensku konurnar eitthvað nýtt til að einbeita sér að. KATE fjallar um íslenska fjölskyldu í seinni heimsstyrjöldinni, Selmu uppreisnargjarnri dóttur þeirra og Kötu indælli sveitastelpu í vist hjá þeim. Hér er á ferðinni lífleg og skemmtileg sýning með lifandi tónlist um sameiginlega sögu Íslendinga og Breta.
Leikstjóri er Agnes Wild. Leikarar eru Olivia Hirst, Rianna Dearden, Chris Woddley, Agnes Wild, Alex Dowding.
Sýningin er flutt á ensku, en leikararnir blóta og syngja á íslensku. Ástandið svokallaða hefur verið í brennidepli undanfarið, og þá einkum í tengslum við réttindi kvenna. Þess má þó geta að þó að KATE sé byggð á sögulegum atburðum er söguþráðurinn uppspuni.
Lost Watch var stofnað árið 2013 af Agnesi Wild, Oliviu Hirst og Riönnu Dearden, en þær stunduðu nám saman í East 15 acting school. Saman hefur leikhópurinn sett upp þrjár sýningar, Play for September, KATE og Goodstock. KATE er fyrsta samstarfssýningin við Miðnætti en sá leikhópur samanstendur af Agnesi Wild leikkonu og leikstjóra, Sigrúnu Harðardóttur tónlistarkonu og Evu Björgu Harðardóttur leikmynda- og búningahönnuð.
Agnes Wild er ungur og upprennandi leikstjóri og rithöfundur. Núna í haust var hún aðstoðarleikstjóri leikverksins Í hjarta Hróa Hattar í Þjóðleikhúsinu og leikstýrði söngleiknum Ronju Ræningjadóttur í fyrra sem sýndur var í Bæjarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Agnes er gjörn á að velja sér verkefni sem fjalla um sterkar konur, en síðasta leikverkið sem hún leikstýrði er Mæður Íslands sem sýnt er í Bæjarleikhúsinu Mosfellsbæ. Hún rekur leikhópana Lost Watch Theatre í London og Miðnætti í Reykjavík. Báðir þessir leikhópar eru reknir af þremur konum og eru þeir í samstarfi með leikverkið KATE í Tjarnarbíói.
Frumsýning fimmtudaginn 26. nóvember kl. 20:00
Sýnt í Tjarnarbíói 26. nóv. – 6. des. 2015
Miðasala: midi.is og tjarnarbio.is