Kameljón er einleikur með Álfrúnu Helgu Örnólfsdóttur, í leikstjórn Friðgeirs Einarssonar. Einstök aðlögunarhæfni og sífelld hamskipti valda því að Kameljónið veit ekki lengur hver grunnlitur þess er. Hefur hún, Kameljónið, eitthvert eiginlegt sjálf eða er hún aðeins endurspeglun þeirra sem á vegi hennar verða í lífinu? Hún ákveður að hafa uppi á sjálfri sér, hvað sem það kostar, því maður verður víst að vera eitthvað. Það er að minnsta kosti ekki hægt að vera EKKERT!

Sýningin Kameljón er tryllt ferðalag um hinar villugjörnu lendur sjálfsins þar sem auðvelt er að týnast.

Kameljón er sýnt 6., 12., 21. og 27. september, og 5. október í Tjarnarbíó.
Miðasala fer fram á Miði.is og Tjarnarbíó.is. Verð: 3500 kr.

Kameljónið Álfrún:
Álfrún Helga Örnólfsdóttir leikkona fær aldrei nóg af því að pæla í því hvernig umhverfið mótar manneskjuna. Þessar vangaveltur urðu kveikjan að einleiknum Kameljón sem hún samdi í samvinnu við fleiri listamenn árið 2012. Persóna verksins er mjög áhrifagjörn og þegar áhorfendur hitta hana fyrir er hún gjörsamlega búin að týna sjálfri sér og veit ekkert hvað hún stendur fyrir lengur. Hún leggur af stað í leit að hinu eina sanna sjálfi og lendir í ýmsum hamskiptum á leiðinni.

Í fyrrasumar var Kameljón á dagskrá Act Alone einleikjahátíðarinnar á Suðureyri og fékk glimrandi viðtökur hjá Vestifirðingum eins og þegar leikritið var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið áður.

Kameljónið er alltaf að prófa eitthvað nýtt og ætlar þess vegna að máta sig inn í Tjarnarbíó í september og október. Nýju rými fylgja alltaf smá breytingar og aðlögun sem Kameljónið á nú ekki í vandræðum með.

Álfrún byrjar leikárið á því að sýna Kameljón í Tjarnarbíói og mun svo leika í Billý Elliott í Borgarleikhúsinu eftir áramót.

Tónlistin í verkinu:
Jarðarfarasöngvari og leikhústónskáld
Guðmundur Vignir Karlsson, einnig þekktur sem Kippi Kaninus, er fjölhæfur tónlistarmaður.
Hann hefur samið tónlist fyrir leikhús, er í hljómsveitinni amiinu og leiðir hljómsveitina Kippi Kaninus, syngur inn á teiknimyndir og aflar heimili sínu tekna með jarðarfararsöng.
Þessa dagana er hljóðheimur leikverksins Kameljón honum ofarlega í huga. Kameljón er samstarfsverkefni Guðmundar Vignis við Álfrúnu Örnólfsdóttur leikkonu og fleira listafólk. Þetta er hugljúft og kraftmikið dansleikhúsverk um letina að hinu eina sanna sjálfi, hvar sem það er nú að finna! Upphaflega var verkið flutt í Þjóðleikhúsinu á Lókal leiklistarhátíðinni 2012, svo 2013 á Act Alone einleikshátðinni á Vestfjörðum og núna ætlar Kameljónið að birtast áhorfendum í Tjarnarbíói.

Leikmynd verksins:
Eftirsóttur leikmyndahönnuður
Brynja Björnsdóttir, myndlistarmaður og leikmyndahönnuður hefur í ýmsu að snúast þessa dagana. Hún á leikmynd í allavega 4 leiksýningum sem sýndar verða í september: Kameljón og Petra í Tjarnarbíói, Gaukar og Bláskjár í Borgarleikhúsinu. Auk þess er hún meðlimur í sviðslistahópnum 16 elskendur sem verður með nýja sýningu í Tjarnarbíói í vetur og hefur skapað áhugaverðar tilraunaleiksýningar á mörkum ólíkra listgreina. Brynja lærði myndlist í LHÍ og er með meistaragráðu í leikmyndahönnun frá Central School of Speech and Drama í London.

Leikmyndin í Kameljóni er úr plexígleri sem á er varpað ljósi og myndböndum. Veggina þarf að pússa fyrir hverja sýningu þar sem glerið sogar að sér ryk.