ImageFrumsýning Nemendaleikhúss Listaháskólans á leikritinu Þrjár systur  eftir Anton Tsjekhov fer fram sunnudaginn 4. desember n.k. kl. 20.00 á Litla sviði Borgarleikhússins. Þrjár systur er annað verkefni Nemendaleikhússins í vetur en hópurinn hefur vakið athygli í haust með kraftmikilli og ögrandi sýningu á leikritinu Forðist okkur eftir Hugleik Dagsson.

ImageÞrjár systur er fjörmikil og ástríðufull tragikómedía um ungt fólk í leit að hamingju og ást um leið og það gerir allt til að flýja raunveruleikann, hvort sem er á vit drauma, fortíðar eða framtíðar. Í verkinu takast þannig á sinnuleysi og veruleikaflótti mannsins og þrá hans um betra líf.

Leikstjóri er Harpa Arnardóttir, Móeiður Helgadóttur sér um leikmynd, Kristína Berman sér um búninga, lýsingu annast Egill Ingibergsson, tónlist er í höndum Ólafar Arnalds og dramatúrg er Magnús Þór Þorbergsson.

Nemendaleikhúsið í vetur skipa: Birgitta Birgisdóttir, Dóra Jóhannsdóttir, Halldóra Malín Pétursdóttir, Jörundur Ragnarsson, Magnea Björk Valdimarsdóttir, Stefán Hallur Stefánsson, Sveinn Ólafur Gunnarsson og Víðir Guðmundsson. Leikararnir Árni Pétur Guðjónsson, Björn Ingi Hilmarsson og Kristbjörg Kjeld veita Nemendaleikhúsinu liðstyrk að þessu sinni en auk þeirra tekur þátt í sýningunni níu manna hljómsveit, sem kallar sig Strakovsky Horo, en hana skipa glaðbeittir og fjölhæfingar menntskælingar, sem spila fjöruga tónlist ættaða frá Balkanskaga.