Jeppi á Fjalli hefur notið mikilla vinsælda á Nýja sviði Borgarleikhússins. Þegar er búið að selja yfir 50 uppseldar sýningar á verkinu. Fyrirhugað var að ljúka sýningum fyrir jól en til að bregðast við hinni miklu eftirspurn hefur verið ákveðið að framlengja sýningartímabil út janúar og samhliða því að færa sýninguna á stærra svið. Sýningin mun flytjast í Gamla bíó sem tekur um 450 manns í sæti. Ekki verður mögulegt að halda lengur áfram vegna anna Ingvars E. Sigurðssonar sem hefur verið bókaður í annað verkefni í febrúar.

Jeppi á Fjalli var frumsýnt 4.október síðastliðinn á Nýja sviði Borgarleikhússins. Benni Erlings, Bragi Valdimar og Megas seiða epískan tón-sjónleik þar sem Ingvar E. Sigurðsson fer með hlutverk Jeppa. Leikhópurinn samanstendur af leikurum og tónlistarfólki.

Jeppi er drykkjumaður en hann hefur líka góðar ástæður til að drekka! Hann er kúgaður kotbóndi, arðrændur og smáður auk þess sem konan hans heldur framhjá honum. Þar sem hann liggur brennivínsdauður í drullupolli birtist Baróninn ásamt fylgdarliði. Baróninn er sá sem allt á og öllu ræður en leiðist samt og nú verður Jeppi nýja leikfangið hans. Hvað gerist þegar kotbóndinn heldur að hann sé eitthvað? Þessi grimmi gamanleikur hefur vakið hrifningu og aðdáun leikhúsgesta síðan hann var fyrst sviðsettur 1722. Jeppi á Fjalli er löngu orðið sígilt leikrit enda árlegur gestur á sviðum leikhúsa í Evrópu.

Uppsetning Borgarleikhússins er nýstárleg því sýningin er stútfull af nýrri tónlist sem flutt er lifandi í sýningunni. Sjálfur meistari Megas semur nýja tónlist og texta við verkið í samstarfi við Braga Valdimar. Benedikt Erlingsson leikstýrir, Gretar Reynisson er höfundur leikmyndar og Ingvar E. Sigurðsson fer með hið eftirsótta hlutverk Jeppa.

Aðstandendur:
Höfundur: Ludvig Holberg
Leikstjóri: Benedikt Erlingsson
Þýðing: Bragi Valdimar Skúlason
Tónlist og textar: Megas og Bragi Valdimar Skúlason
Leikmynd: Gretar Reynisson
Búningar: Agnieszka Baranowska
Leikgervi: Árdís Bjarnþórsdóttir
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Tónlistarstjórn: Stefán Már Magnússon
Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson
Aðstoðarmaður leikstjóra: Jenný Lára Arnórsdóttir
Leikarar og tónlistarmenn: Ingvar E. Sigurðsson, Bergur Þór Ingólfsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Bergþór Pálsson, Arnar Dan Kristjánsson, Arnmundur Ernst B. Björnsson, Björn Stefánsson, Unnur Birna Björnsdóttir og Stefán Már Magnússon.