Freyvangsleikhúsið sýnir um þessar myndir alþýðuleikinn Þið munið hann Jörund. Steinþór Þráinsson brá sér í Freyvang og hefur góð orð um sýninguna. Pistillinn er birtur á Leiklistarvefnum með góðfúslegu leyfi höfundar og Vikudags, en þar birtist hann í gær.
Jörundur góður!
Freyvangsleikhúsið sýnir leikritið Þið munið hann Jörund eftir Jónas Árnason. Tónlist við söngtexta írsk, skosk og ensk þjóðlög.
Leikstjóri Saga Jónsdóttir, leikmynd Þórarinn Blöndal, lýsing Ingvar Björnsson o.fl., hljóðvinnsla Kristján Edelstein, búningar Kristín Sigvaldadóttir, dansar Elín Halldórsdóttir. Meðal leikara: Ingólfur Þórsson, Hannes Örn Blandon, Stefán Guðlaugsson, Daníel Freyr Jónsson, Jónsteinn Aðalsteinsson, Steingrímur Magnússon. Tónlistarfólk: Hermann Arason, Eiríkur Bóasson, Þorsteinn Guðmundsson/Brynjólfur Brynjólfsson, Sigríður Hulda Arnardóttir.
Sagan af Jörundi hundadagakonungi er mikil ólíkindasaga, ekki síst fyrir þær sakir að fyrir henni er fótur og sagan ekki eldri en rétt 200 ára. Við upphaf 19. aldar var lítið um siglingar danskra kaupskipa til Íslands vegna ófriðar í Evrópu og sáu enskir sér leik á borði og reyndu að ná viðskiptum við Íslendinga. Danskur ævintýramaður, Jörgen Jörgensen, sigldi á ensku kaupskipi til Íslands árið 1809 og átti fyrst og fremst að kaupa tólg af Íslendingum til sápugerðar. En erindi Jörgens tók óvænta stefnu þegar hann ákvað að gerast bjargvættur íslensku þjóðarinnar, leggja landið undir sig og taka sér konungstign um skeið. Saga valdatöku Jörgens verður ekki rakin hér, en Jónas Árnason gerði hana hins vegar ódauðlega þegar hann samdi hið vinsæla leikrit sitt, Þið munið hann Jörund, sem byggt er á valdabrölti Jörgens hins danska.
Jónas Árnason var fjölmenntaður sagnaþulur og fékkst við hvers konar ritstörf, blaðamennsku og kennslu auk þingmennsku. Meðal alþýðunnar mun Jónasar Árnasonar minnst fyrir leikrit sín og hina vinsælu söngtexta sem hann gerði meðal annars við írsk, ensk og skosk þjóðlög. Áður en að Jörundi kom, hafði Jónas samið vinsæla söngleiki í samstarfi við Jón Múla bróður sinn. Má þar nefna Deleríum búbónis og Járnhausinn þar sem Jón Múli sá um tónlistina og Jónas um textann. En í leikritinu um Jörund hundadagakonung velur Jónas að nota írska, skoska og enska þjóðlagatónlist, trúlega til þess að ná stemmningunni, hinum írska/engilsaxneska anda. Og honum tekst ætlunarverkið. Söguleg leikrit áttu vinsældum að fagna meðal þjóðarinnar alla síðustu öld. Ekki vitum við hvernig þeim reiðir af á 21. öldinni, en styrkleiki Jörundar felst ekki síst í tónlistinni og mun hann því enn eiga langa lífdaga fyrir höndum.
Já, tónlistin gerir leikritið Þið munið hann Jörund sígilt í hugum Íslendinga. Fólk lærir söngtextana við þessi frábæru, erlendu þjóðlög og þar með glæðist allt lífi. Og líkt og leikverkið sækir vinsældir sínar mjög í söngtextana og lögin, er ekki óvarlegt að álíta að sýningin sjálf standi og falli með tónlistarflutningnum. Í Freyvangi er tónlistarflutningurinn frábær. Hljóðfæraleikur allur hinn fagmannlegasti, röskur, en aldrei ágengur, og söngurinn einhvern veginn nákvæmlega eins og hann á að vera. Hressileg og viðfelldin rödd Hermanns Arasonar, stundum skemmtilega hrjúf en samt svo mild, hlýtur að vera alveg eins og Jónas Árnason vildi hafa hana. Að ekki sé minnst á líflega og leikræna framkomu Hermanns sem gefur bestu leikurum ekkert eftir. Sigríður Hulda Arnardóttir fær líka bestu einkunn fyrir söng sinn og leik. Auk söngsins er hún í hlutverki sögumanns og ferst það vel úr hendi. Sigríður syngur af einlægri gleði og hlýju svo varla verður betur gert í þessu hlutverki.
Leikarar sýningarinnar standa sig líka vel og margir afbragðs vel. Á engan er hallað þótt Hannes Örn Blandon í hlutverki Charlie Brown sé fyrst nefndur til sögunnar, en Hannes fer á kostum í leik sínum. Vissulega er hlutverkið þakklátt sem kallað er, persónan skemmtileg frá höfundarins hendi. En slíkt er ekki nóg og stundum jafnvel hættulegt þar eð mörgum hættir til að ofleika við þær aðstæður. Hannes Örn fellur ekki í þá gryfju og sýnir svo enn einu sinni hve snjall leikari hann er. Charlie Brown Hannesar er bráðskemmtilegur, kærulaus ruddi sem lætur aldrei deigan síga. Ingólfur Þórsson stendur sig líka prýðilega sem Jörundur sjálfur, en það hlutverk getur ekki kallast þakklátt, heldur miklu frekar erfitt. Ingólfur fer varla af sviðinu alla sýninguna. Stefán Guðlaugsson er kostulegur sem Stúdíósus, enda mikill gamanleikari og þaulvanur. Það er vel meðan Freyvangsleikhúsið hefur slíkum mönnum á að skipa. Daníel Freyr Jónsson er kraftmikill og fínn sem Trampe greifi og ótrúlega hraður og öruggur með erfiðan texta. Jónsteinn Aðalsteinsson traustur sir Alexander Jones og Steingrímur Magnússon léttur og einlægur Laddie. Aðrir leikarar sinna minni hlutverkum af trúmennsku. Pálmi Reyr Þorsteinsson og Hjálmar Arinbjarnarson skondnir bændur, annar þingeyskur og hinn húnvetnskur. Gerðir óþarflega aulalegir fyrir minn smekk, en fyndnir engu að síður og vel leiknir.
Leikmyndin er í raunsæisstíl sem hæfir sögulegu leikriti, skemmtilega hönnuð og útfærð svo að litla sviðið í Freyvangi verður stórt. Áhorfendur fara milli landa eins og ekkert sé og ferðast um Ísland ríðandi með Jörundi hundadagakonungi. Sviðsljósin styðja við raunsæið og auka á ævintýraljómann. Búningahönnun Kristínar Sigvaldadóttur er enn ein rósin í hnappagat þessarar sýningar. Og öllu saman hefur Saga Jónsdóttir stjórnað af listfengi og kunnáttu. Saga hlýtur að eiga mestan heiðurinn af því hversu heilsteypt og ágæt þessi leiksýning er.
Þeir sem unna íslenskri alþýðumenningu eins og hún gerist best, ættu að skreppa í Freyvang eina kvöldstund.
Steinþór Þráinsson.
{mos_fb_discuss:2}