Meginfélag áhugaleikara í Færeyjum bíður áhugasömum Íslendingum á námskeið í leikmyndagerð hjá danska leikmyndahöfundinum Jan de Neergaard eða á önnur námskeið í Leiklistarskóla Færeyja, sem starfa mun 1.-5. júní 2011 í Lýðháskóla Færeyja. Í skólanum verður einnig kennd leikritun, leikstjórn og leiklist. Íslendingum er boðin þátttaka í námskeiðinu, fæði og gisting þeim að kostnaðarlausu. Sjálfir þurfa þeir þó að standa straum af ferðakostnaði til og frá Færeyjum. Tveir íslenskir kennarar kenna við skólann, Sigrún Valbergsdóttir og Ágústa Skúladóttir.

Jan de Neergaard hefur starfað við leikmyndagerð í leikhúsum og við danska sjónvarpið síðan hann lauk prófi frá Danmarks Designskole árið 1980. Hann hefur mikla reynslu í að aðlaga myndmálið sjónvarpinu. Verkefnin hafa verið af marvíslegum toga: skemmtidagskrár, Grand Prix keppnir, upplýsingadagskrár, sorgar- og gleðileikir, en jöfnum höndum hefur hann unnið við leikhús, sýningar á borð við Leiðsögumaðurinn eftir Botho Strauss, Sýningin um Guð eftir Göran Thunström og Hringjarinn frá Notre Dame eftir Victor Hugo. Einnig óperur eins og Ástardrykkurinn eftir Donizetti, Öskubuska eftir Rossini og La Bohéme eftir Puccini. Síðasta verk hans var Ezra Pound, nýskrifuð ópera eftir Frans Winther sýnd á Takkelloftet í Óperunni í Kaupmannahöfn. Auk þessa hefur Jan de Neergaard verið hönnuður margra sýninga á söfnum. Hér má nefna sýningar á Borgarlistasafni Kaupmannahafnar og á safninu í Charlottenborg, á Konunglea bókasafninu og á arkitektatvíæringnum í Feneyjum. Nýjasta verkefni hans er að hanna ný ljós í nokkrar sveitakirkjur í Danmörku. Í mörg ár hefur Jan de Neergaard einnig unnið við Odin-leikhúsið í Danmörku. Hann hefur einnig starfað utan Danmerkur, nú síðast í Ravenna á Ítalíu við Don Giovanni al inferno sem er ópera og leiksýning í nýrri útfærslu Eugenio Barba. Næsta verkefni hans er óperan Hans og Greta eftir Humperdink við Tónlistarhúsið í Holsterbro.

Áhugasamir íslendingar geta haft samband við MáF, +298 315624 eða „maf@maf.fo og fengið umsóknareyðublað. Frestur til að sækja um rennur út mánudaginn 4. apríl 2011.

{mos_fb_discuss:3}