Leikfélag Reyðarfjarðar æfir nú í samvinnu við Verkmenntaskóla Austurlands á Neskaupstað söngleikinn Vælukjói (Cry baby). Leikstjóri er Guðjón Sigvaldason. Æfingar hófust upp úr miðjum janúar og frumsýning verður 31 mars. Þetta er samstarfsverkefni er byggt upp og í kringum Listahátíðina Sprotann sem Verkmenntaskólinn stendur fyrir í sömu viku og frumsýnt verður.

Leikarar í verkinu koma aðallega úr röðum nemenda skólans en þó tekur skólastjóri og einn kennari þátt ásamt formanni Leikfélagi Reyðarfjarðar sem og nokkrum öðrum úr félaginu. Söngleikurinn verður sýndur í Egilsbúð og væntanlega í Félagslundi á Reyðarfirði eftir páska. Þetta verður fyrsta leiksýning Leikfélags Reyðarfjarðar eftir breytingar í Félagslundi en verið er að breyta húsinu úr félagsheimili í ráðstefnusal, bíó og leikhús með upphækkuðum sætum.

Laugardaginn 26. febrúar sl. stóðu Guðmundur Y. Hraunfjörð, formaður Leikfélags Reyðarfjarðar og Signý Ormarsdóttir menningarfulltrúi frá Menningarráði Austurlands fyrir fundi með áhugafólki um leiklist á Austurlandi, frá Höfn og til Vopnafjarðar og var mæting góð. Umræðuefni fundarins var leiklist og þær aðstæður sem hún býr við á Austurlandi, t.d. erfiðleikar við að fá fólk til að starfa í leikfélögunum sem og aðstöðuleysi. Markmiðið var líka að koma á betri samvinnu milli félaga og stuðla að því að unnið yrði sameiginlega að stefnumörkun í þeim byggðakjörnum sem leiklist er stunduð, t.d. til að sýna fram á forvarnagildi leiklistarstarfsins og til að auka skilning almennings og pólitíkusa á nauðsyn þess að halda uppi góðri listamenningu í sveitarfélögunum. Fundurinn var haldinn í safnaðarheimilinu á Reyðarfirði og er ætlunin að halda annan slíkan í maí.