Fimmtudaginn 18. febrúar frumsýnir Borgarleikhúsið í samstarfi við Óskabörn ógæfunnar verkið Illsku sem unnið er upp úr samnefndri skáldsögu Eiríks Arnar Norðdahl.  Verkið er sýnt á Litla sviðinu. Leikstjóri er Vignir Rafn Valþórsson. Leikarar eru Hannes Óli Ágústsson, Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Leikmynd gerir Brynja Björnsdóttir og búninga gerir Guðmundur Jörundsson.

Agnes er ástfangin af Ómari sem er ástfanginn af Agnesi sem er ástfangin af Arnóri sem er ísfirskur nýnasisti.

Illska er ástarsaga úr Íslandi nútímans. Hárbeitt ádeila á stefnur og strauma í íslensku þjóðfélagi og veltir upp spurningum sem erfitt er að spyrja, og enn erfiðara að svara.

Getum við setið hjá á meðan heimurinn breytist? Verðum við að gæta bræðra okkar og systra? Erum við að sofna aá verðinum? Hvað verður um þrjú hundruð þúsund manna þjóð ef landamærin opnast og við dembum okkur á bólakaf í fjölmenningarþjóðfélag 21. aldarinnar? Lifir íslensk menning, þjóð og tunga það af?

Óskabörn ógæfunnar er sjálfstætt starfandi leikhópur sem kom eins og ferskur blær inn í íslenskt leikhúslíf árið 2012. Sýningar hópsins hafa alla jafnan vakið mikla athygli fyrir hugrekki og nýstárleika.

Eiríkur Örn Norðdahl (1978) er einn framsæknasti höfundur sinnar kynslóðar og hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín, bæði ljóð og skáldsögur.

Illska hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2012 og bóksalar kusu hana bestu skáldsögu ársins. Einnig fékk hún tilnefningu
til Bókmenntaverðlauna Norðurlandanna 2013.