Þjóðleikur er tilraunaverkefni sem Þjóðleikhúsið stendur fyrir á Austurlandi í vetur. Verkefnið miðar meðal annars að því að efla leiklistarstarf ungs fólks og hvetja til nýsköpunar í íslenskri leikritun. Þjóðleikhúsið er aðili að Vaxtarsamningi Austurlands og hefur samvinnu við menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og fleiri aðila á Austurlandi um skipulag og framkvæmd þessa nýstárlega verkefnis.
Þjóðleikur er fjölþætt verkefni en því mun ljúka með allsherjar leiklistarhátíð ungs fólks í vor. Allir hópar geta tekið þátt en eina skilyrðið er að að minnsta kosti einn fullorðinn einstaklingur leiði hópinn, að leikarar séu að minnsta kosti 8-10 talsins og á aldrinum 13-20 ára (fæddir 1988-1995). Skólahópar undir leiðsögn kennara, ungir liðsmenn áhugaleikfélaga, frístundahópar, vinahópar… allir mega vera með.
Eitt sem hamlað getur því að skólar setji upp leiksýningar er skortur á vönduðum leikverkum fyrir unga leikara. Þrjú glæný 45 mínútna leikrit verða því skrifuð sérstaklega fyrir Þjóðleik af þekktum leikskáldum af yngri kynslóðinni. Höfundarnir eru Bjarni Jónsson, Sigtryggur Magnason og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann. Verkin þrjú bjóða öll upp á mörg bitastæð hlutverk og vandaðan texta fyrir unga leikara.
Þjóðleikhúsið mun veita listrænum stjórnendum Þjóðleiks-hópanna aðstoð í formi faglegrar ráðgjafar og námskeiða bæði í Reykjavík og á Austurlandi frá og með október næstkomandi. Þar verða teknir fyrir þættir eins og leikmyndahönnun, ýmis konar sviðstækni, leikstjórn og skipulag æfingaferlis. Leiðbeinendur á námskeiðunum verður listafólk sem allt er í fremstu röð hvert á sínu sviði, og því ættu stjórnendur verkefnanna að fara vel undirbúnir af stað í vinnuna með sínum hópum.
Hver hópur mun síðan sýna í sínum skóla eða heimabyggð á þeim tíma sem honum hentar, en í lok apríl 2009 verður efnt til stórrar uppskeruhátíðar þar sem allir hóparnir sýna á Egilsstöðum. Þar geta þátttakendur hitt annað ungt leikhúsáhugafólk af Austurlandi, spjallað við leikskáldin, borið saman bækur sínar og séð afrakstur hinna hópanna.
Opnað var fyrir umsóknir í Þjóðleik 21. september síðastliðinn en skilafrestur er til 6. október nk..
Nánari upplýsingar veitir: Vigdís Jakobsdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar Þjóðleikhússins / vigdis@leikhusid.is / 585 1267 gsm: 899 0272
Einnig má nálgast nánari upplýsingar á www.leikhusid.is
{mos_fb_discuss:3}