Óhapp!, nýtt verk eftir Bjarna Jónsson, verður frumsýnt í Kassanum við Lindargötu 7 nk. föstudag. Meðal leikara í sýningunni eru Atli Rafn Sigurðarson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Dóra Jóhannsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og Stefán Hallur Stefánsson en leikstjóri er Stefán Jónsson.


Óhapp! er óvanalegt stofudrama með þar sem ólíkir heimar skarast. Við lítum inn til ungra hjóna sem glíma við fortíðina og hvort annað, kennaraverkfall setur óvænt strik í reikning sjónvarpsstjarna, sálfræðingurinn leggur línurnar og kokkurinn töfrar fram unaðslegt lambakjöt. Hér er á ferðinni „heimilisleg“ umfjöllun um þjóðfélag sem er á kafi í sjálfu sér og ósköp kunnuglegt fólk sem er ekki allt sem það sýnist. 

Óhapp! er þriðja verk Bjarna Jónssonar sem Þjóðleikhúsið setur upp en hér hafa áður verið sýnd verk hans Kaffi og Vegurinn brennur. Bjarni hefur starfað sem dramatúrg, leikstjóri, þýðandi og höfundur, m.a. fyrir Þjóðleikhúsið, Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar, Nemendaleikhúsið, Leikfélag Íslands, Ríkisútvarpið og EGG-leikhúsið. Auk frumsaminna verka hefur Bjarni unnið leikgerðir, til dæmis eftir sögum Böðvars Guðmundssonar, Híbýli vindanna og Lífsins tré, fyrir Borgarleikhúsið og verkin Sölumaður deyr e. Arthur Miller og Ævinlega eftir samnefndri sögu Guðbergs Bergssonar fyrir Útvarpsleikhúsið.  

Bjarni hefur þýtt mörg leikrit, meðal annars eftir Thomas Bernhard, Mark Ravenhill, Tennessee Williams, Goethe og David Giselmann.  Hann hefur einnig þýtt nokkrar skáldsögur úr þýsku og ensku. Bjarni hefur tvisvar hlotið tilnefningu til Grímunnar, íslensku leiklistarverðlaunanna, fyrir leikstjórn í útvarpi. Bjarni situr í stjórn LOKAL, nýrrar alþjóðlegrar leiklistarhátíðar sem nú er í startholunum.    

Leikstjóri sýningarinnar er eins og áður sagði Stefán Jónsson en um leikmynd og búninga sér Börkur Jónsson. Hljóðmynd gerir Frank Hall en ljósahönnun annast Lárus Björnsson. 
 
Forsýningar verða nk. þriðjudags- og miðvikudagskvöld kl. 20.