Freyvangsleikhúsið
Skilaboðaskjóðan
Höfundur: Þorvaldur Þorsteinsson
Leikstjóri: Daníel Freyr Jónsson

Freyvangsleikhúsið frumsýndi laugardaginn 6. október Skilaboðaskjóðuna eftir Þorvald Þorsteinsson í leikstjórn Daníels Freys Jónssonar. Höfundur tónlistar í verkinu er Jóhann G. Jóhannsson en um tónlistarstjórn sáu Sigríður Hulda Arnardóttir og Brynjólfur Brynjólfsson. Júlíus Júlíusson brá sér á sýninguna í Freyvangi og setti saman pistil um upplifunina.

 

Að mínu mati er eitt af hlutverkum áhugaleikhússins að gefa fólki kost á að taka þátt í gefandi félagsstarfi. Hlutverkin í leikhúsinu eru fjölbreytt hvort sem að þú vilt láta ljós þitt skína á sviðinu eða baksviðs, allt saman skiptir þetta miklu máli til að góður árangur náist. Í nútímaþjóðfélagi er afþreyingarsamkeppnin mikil og í mörgum tilfellum verður æ erfiðara að fá fólk til að sinna sjálfboðaliða og félagsstarfi. En það er alveg morgunljóst að hjá Freyvangsleikhúsinu er það ekki vandamál enda um eitt öflugasta og metnaðarfyllsta áhugaleikfélag landsins að ræða. Þar er að finna mikið af kraftmiklu og hæfileikaríku fólki og orkan flæðir upp um alla veggi.

skilaboaskjodan2Skilaboðaskjóðan eftir Þorvald Þorsteinsson er bráðskemmtilegt og líflegt barnaleikrit með boðskap. Til að skapa hinn einstaka leikhúsgaldur þarf allt að ganga upp og það er sannarlega að gerast á fjölum Freyvangsleikhússins. Leikur, leikmynd, lýsing, hljóð, tónlist, búningar og öll umgjörð er til mikillar fyrirmyndar.

Það hefur tekist mjög vel til við að manna verkið og eru flestir eins og sniðnir í hlutverkin kannski hafa þeir hoppað beint upp úr Skilaboðaskjóðunni. Það er erfitt að taka einhverja út úr sterkum leikhópnum en til að nefna einhverja, minnist ég t.d. á dvergana, Rauðhettu og úlfinn. Skógardýrin voru vel æfð, danspor og hreyfingar óaðfinnanlegar. Þau ljá sýningu góðan blæ og eru frábær í söngatriðunum og skýrmælt.

Ég ólst upp við ákveðna tegund af leikmynd ef svo er hægt að segja. Leikmyndir sem var mikið nostrað við, hlýjar, mikið málaðar og þær voru eins og ævintýri sem þú dast hreinlega inn í. Oft í seinni tíð hef ég saknað slíkra leikmyndaââ‚ en þarna var hún komin, falleg og full af lífi, öll smátriðin alveg yndisleg. Að sjálfsögðu bætir góð og fagmannleg lýsing við leikmyndina enda eiga þessir þættir að vinna saman. Ég lagði mig sérstaklega fram við að skoða búningana, þar vil ég hafa samræmi og flæði við hæfi sem hjálpar og styður við verkið. Það var ekki hægt að sjá neitt sem truflaði þar, það er með þetta eins og annað í verkinu það hefur verið vandað til verks.
Þátttaka áhorfenda í salnum á þessari sýningu var mjög góð og mikið var fagnað í lok sýningarinnar.

skilabodaskjodan3Þau börn sem voru með mér voru himinlifandi ánægð og skemmtu sér konunglega. Við ræddum málin á leiðinni heim og ég spurði þau hver þeim hefði fundist skemmtilegastur eða leika best og niðurstaðan var algjörlega í takt við sýninguna tvö af þremur börnum sögðu „allir“., þriðja barnið nefndi Skemil uppfinningadverg. Svo báðu þau mig að nefna einhvern, mér þótti það erfitt en hugsanlega er úlfurinn þess verður að minnst sé á. Leikurinn er mjög góður og söngurinn ekki síðri. Leikstjórinn hefur augljóslega ekki kastað til höndunum, hann hefur hugsað hvert smáatriði vel og vandað til verks. Sýningin er vel æfð, staðsetningar og innkomur háréttar og flæðið gott, aldrei dauður punktur.

Það er aðeins eitt sem ég er ekki ánægður með en það er myndin eða hönnunin á forsíðu á ágætri leikskrá verksins. Ég tók eftir því í leikhléi að í sjoppunni voru til sölu heimagerðar skjóður sem voru seldar með góðgæti í. Skjóðurnar voru samvinnuverkefni góðra aðila t.d. var hver skjóða með teiknaðri mynd. Þetta er eitt af smátriðunum sem sýna mér að í Freyvangsleikhúsinu eru allir á tánum og verkefnið tekið alla leið.

Ég spái því að þessir snillingar sem að þessu verki standa eigi eftir að sýna Skilaboðaskjóðuna oft og mörgum sinnum og það er klárlega hægt að mæla með fjölskylduferð í Freyvang. Takk fyrir mig og mína og til hamingju aðstandendur og allir í Eyjafjarðarsveit.

Júlíus Júlíusson

Myndirnar með greininni tók Gunnlaug E. Friðriksdóttir