Um þessar mundir er verið að sýna einleikinn Úti bíður andlit á glugga í gamla pósthúsinu á Borgarfirði Eystra. Höfundur, leikari og leikstjóri er Halldóra Pétursdóttir. Sesselja Traustadóttir var á staðnum og hér kemur umfjöllun hennar um sýninguna:

Laugardaginn 28. júlí var gríðarlega mikið um að vera á Borgarfirði eystra. Veðrið lék við heimamenn og gestir flykktust til bæjarins. Aldrei hefur annar eins fjöldi komið saman á tjaldstæðinu og við flesta bæi og í görðum heimamanna voru misstórar tjaldbúðir. Alls staðar var fólk og einstök stemmning myndaðist. Stórtónleikar söngkonunnar Emiliönu Torrini og Belle & Sebastian voru haldnir í Bræðslunni. Þeir heppnuðust sérstaklega vel eins og landsmenn gátu fylgst með á Rás 2 sem var með beina útsendingu af tónleikunum. Fjöldi íbúa á Borgarfirði tífaldaðist þessa helgi.
Um þessar mundir er verið að sýna einleikinn Úti bíður andlit á glugga í gamla pósthúsinu á Borgarfirði Eystra. Höfundur, leikari og leikstjóri er Halldóra Pétursdóttir. Sesselja Traustadóttir var á staðnum og hér kemur umfjöllun hennar um sýninguna:

Laugardaginn 28. júlí var gríðarlega mikið um að vera á Borgarfirði eystra. Veðrið lék við heimamenn og gestir flykktust til bæjarins. Aldrei hefur annar eins fjöldi komið saman á tjaldstæðinu og við flesta bæi og í görðum heimamanna voru misstórar tjaldbúðir. Alls staðar var fólk og einstök stemmning myndaðist. Stórtónleikar söngkonunnar Emiliönu Torrini og Belle & Sebastian voru haldnir í Bræðslunni. Þeir heppnuðust sérstaklega vel eins og landsmenn gátu fylgst með á Rás 2 sem var með beina útsendingu af tónleikunum. Fjöldi íbúa á Borgarfirði tífaldaðist þessa helgi.

Það fór ekki mikið fyrir nýja leikhúsinu í Pósthúsinu. Þar voru þó sýndar 3 leiksýningar þennan dag, fyrir fullu húsi. Reyndar tekur húsið ekki nema 25 í sæti en það varð að setja inn nokkrar aukasýningar þessa helgi, slík var aðsóknin og þaðan fór enginn svikinn. Halldóra Malín setti saman undursamlega leikhúsperlu sem líður seint úr minni. Til hamingju Borgfirðingar; þetta er besta leiksýning sem ég hef séð í íslensku leikhúsi um árabil. Á örskömmum hálftíma tókst ég svo á flug með sýningunni að enn felli ég tár yfir örlögum útburðanna og tísti á næsta augnabliki yfir einsemd Nadda eymingjans, sem var ekkert nema einsemdin; aleinn í afmælinu sínu og enginn kom til að sjá hann.

halldoramalin_stor.jpgHalldóra Malín útskrifaðist úr Leiklistarháskólanum í vor og setti saman þetta verk úr nokkrum vel þekktum álfa- og vættasögum frá Borgarfirði að beiðni aðstandenda Kjarvalsstofu. Nálgun hennar á efninu er okkur sem þekkjum til sagnanna ákaflega þakklát. Þeir sem ekki þekkja sögurnar lenda svolítið utangátta en það fer enginn varhluta af því hvað leikkonunni tókst vel að búa til ævintýri úr leikmynd, hljóðum og lýsingu þó að sögurnar væru ekki fullsagðar. Sýningin var sett inn í ramma þar sem sagan af Snotru álfkonu var tekin til rannsóknar. Ramminn var sem betur fer ákaflega lauslegur og leyfði leikkonan sér að fara frjálslega með efnið og um víðan völl. Grýlukvæðið í upphafi verksins var vel við hæfi, síðan hófst rannsóknin á Nesi og inn í hana fléttuðust síðan fleiri sögur; stúlkan í Hvannstóð, Móðir mín í kví, kví, sagan af Nadda og Gellivör tröllskessa – sem lét heldur betur til sín taka og reif niður leikmyndina á þeirri sýningu sem ég sat. Við fengum svo sem ekkert að vita um hið ógurlega skrímsli sem Naddi var. Hann ógnaði öllum sem ætluðu um Njarðvíkurskriðurnar og varð að lokum undir í harkalegri rimmu þar sem Jón Björnsson frá Njarðvík hafði betur. Söguna má lesa á heimasíðu Borgfirðinga en Halldóra Malín bauð okkur í afmæli Nadda. Hún fór vel með; reyndi ekki einu sinni að sýna okkur óvættinn en við heyrðum hann söngla og ekki vantaði lýsinguna – enginn kom til að vera með honum í karaókíinu. Naddi átti enga vini, Naddi var aleinn.

Leikmynd sýningarinnar var einkar vel hönnuð inn í fyrrum afgreiðslu Pósthússins. Tjöld af ólikum stærðum og gerðum, kassar og nokkrir leikmunir unnu vel með sýningunni sem var frábærlega lýst af þeim Halldóru Malín og Unni Sveinsdóttur.  Áhrif Guðjóns Sigvaldasonar voru vel merkjanleg en Halldóra Malín hefur margoft leikið undir hans leikstjórn hjá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs og sem lærlingur meistara síns ætlar henni að takast skemmtilega að leyfa ljósinu að lifa góðu lífi í verkum sínum.

Stundum fannst mér að jólasveinninn væri kominn í heimsókn með fullan poka af gjöfum. Þú vissir aldrei hvað hann færði þér næst en spennan og eftirvæntingin voru ósvikin.

Ég hlakka til að fylgjast með verkum Halldóru Malínar í framtíðinni. Það er augljóst að við höfum eignast frjóan, skapandi og skemmtilegan listamann sem hefur mikið að gefa í leikhúsinu. Til hamingju með vel smíðaða leikhúsperlu.