Leikfélag Kópavogs frumsýndi í Hjáleigunni um sl. helgi leikverk, sem hlotið hefur nafnið „Allra kvikinda líki“ og er unnin af leikstjórum og leikhóp upp úr breska teiknimyndablaðinu VIZ. Fulltrúi leiklistarvefsins var á staðnum. Leikfélag Kópavogs
Allra kvikinda líki, unnið upp úr teiknimyndablaðinu Viz
Leikstjórn: Guðjón Þorsteinn Pálmarsson og Hrund Ólafsdóttir
Sýnt í Hjáleigunni
Leikfélag Kópavogs frumsýndi í Hjáleigunni um sl. helgi leikverk, sem hlotið hefur nafnið „Allra kvikinda líki“ og er unnin af leikstjórum og leikhóp upp úr breska teiknimyndablaðinu VIZ. Segir þar frá mjög svo sérkennilegum ævintýrum Jóa nokkurs sem býr á bóndabæ hjá Möggu frænku sinni ásamt hundinum Júdasi.
Sýning LK er í tveimur orðum sagt mígandi fyndin, alla vega fyrir þá sem hafa kolsvartan húmor, ómengaðan af pólitískri rétthugsun. Vinna þar saman hin súrrealísku (en jafnframt hverdagslegu) ævintýri Jóa og svo góð útfærsla leikgerðar hjá leikstjórum og leikhóp. Leikstjórarnir tveir, Hrund Ólafsdóttir og Guðjón Þorsteinn Pálmarsson hafa bæði starfað með leikfélaginu áður, Guðjón sem leikari (áður en hann lenti í atvinnumennsku) og Hrund leikstýrði m.a. einþáttungnum „Hinir gullnu bogar hugrekkisins“ sem hún vann einmitt upp úr VIZ. Samvinna þeirra hefur hér tekist með miklum ágætum, stíll sýningarinnar er mjög skýr og hún eins og áður sagði öll hin skemmtilegasta.
LK hefur á undanförnum árum lagt megin áherslu á hinn svokallaða deviced-stíl og byggt upp leikhóp sem hefur þennan stíl afar vel á valdi sínu. Í þessari sýningu mætir hins vegar splunkunýr leikhópur á svæðið og hefur aðeins einn leikaranna leikið með LK á áður, hinir hafa litla leikreynslu eða hafa starfað með öðrum leikfélögum. Það er því óneitanlega gaman að sjá hve gott vald á deviced-stílnum þessi leikhópur sýndi á frumsýningunni þótt að á köflum gætti dálítils óöryggis hjá stöku leikara. Öll áttu þau góða spretti og sum hver langa og samfellda.
Tónlist og söngtextar eru eftir Snæbjörn „Bibba“ Ragnarsson og eru alveg kapítuli út af fyrir sig, söngtextar þeir fyndnustu sem undirritaður hefur heyrt í leikhúsi (og þótt víðar væri leitað) í háa herrans tíð og flutningur tónlistar alveg til fyrirmyndar, féll vel að verkinu og styrkti það í hvívetna.
Ég verð reyndar að lokum að viðurkenna ég skil ekki alvega nafn sýningarinnar og finnst það eiginlega það lakasta við hana. „Ævintýri Jóa og Júdasar“ hefði t.d. verið miklu betra eða bara einfaldlega „Putti frændi“.
Ármann Guðmundsson