Leikritið Hjónabandsglæpir eftir franska leikskáldið Eric-Emmanuel Schmitt verður tekið til sýninga á ný í Þjóðleikhúsinu. Sýningar hefjast þann 11. október í Kassanum á Lindargötu 7. Verkinu var afar vel tekið í vor og var þéttsetið á allar sýningarnar sem og aukasýningar. Sýningin hlaut ennfremur afar góða dóma hjá gagnrýnendum. 


Hjónabandsglæpir er nýlegt verk eftir franska leikskáldið Eric-Emmanuel Schmitt sem íslenskir leikhúsgestir kannast mæta vel við en hann skrifaði einnig verkin  Abel Snorko býr einn og Gesturinn sem bæði nutu mikilla vinsælda hér á landi. Hjónabandsglæpir er nærgöngult og átakaþrungið leikrit um ástina, minnið og gleymskuna, og það sársaukafulla hlutskipti að þurfa að sækja sjálfsmynd sína til annarra. Verkið fjallar um hjón sem hafa verið gift í fimmtán ár þegar hann verður skyndilega fyrir því að missa minnið. Með aðstoð hennar reynir hann að komast að því hver hann er. Stóra spurningin er þó hvort hægt sé að tendra aftur loga ástarinnar eftir áralanga sambúð?
 
 Leikararnir Hilmir Snær Guðnason og Elva Ósk Ólafsdóttir leika í sýningunni en leikstjóri er Edda Heiðrún Backman. Hilmir og Elva Ósk voru bæði tilnefnd til Grímuverðlauna í vor fyrir leik sinn í sýningunni og á dögunum hlaut Elva Ósk viðurkenningu úr Minningarsjóði frú Stefaníu Guðmundsdóttur. Elva Ósk er ein af okkar fremstu leikkonum en hún hefur leikið fjölmörg burðarhlutverk í sýningum Þjóðleikhússins á undanförnum árum, þar á meðal í sýningunum Grandavegi 7, Óskastjörnunni, Komdu nær, Brúðuheimili, Horfðu reiður um öxl, Veislunni, Vilja Emmu og Þetta er allt að koma. Elva Ósk hefur einnig leikið í nokkrum kvikmyndum, meðal annars í Stuttum frakka, Benjamín dúfu, Ikingut, Hafinu og Kaldri slóð. Hún hlaut Edduverðlaunin fyrir leik sinn í Hafinu. Hún lék einnig í framhaldsþáttunum Erninum. Elva Ósk hlaut Menningarverðlaun DV í leiklist fyrir túlkun sína á hlutverki Nóru í Brúðuheimili og var tilnefnd til Grímuverðlaunanna fyrir leik sinn í Veislunni.
 

Þýðandi verksins er Kristján Þórður Hrafnsson, leikmynd og búninga gerir Jón Axel Björnsson en leikgervi Ingibjörg G. Huldarsdóttir. Óskar Guðjónsson semur tónlist en heiður að hönnun lýsingar á Lárus Björnsson. 
 

{mos_fb_discuss:2}