Dansleikhússamkeppni LR og ÍD verður haldin í fimmta sinn nú í júní.  Dansleikhús er vaxandi listform en  tilgangur keppni af þessu tagi er að  styðja undir þetta form, kanna möguleika þess og veita listamönnum tækifæri til að kynnast greininni betur.  Mikill áhugi er á dansleikhúsi meðal listamanna en umsækjendur hafa verið úr myndlist, tónlist, dansi og leiklist. Síðastliðið ár bárust rúmlega þrjátíu hugmyndir í keppnina.

Keppnin hefur verið geysivinsæl meðal áhorfenda og erfitt getur verið að næla sér í miða á þennan skemmtilega viðburð. Er það vilji Leikfélags Reykjavíkur og Íslenska dansflokksins að festa keppnina enn frekar í sessi og taka skref í áttina að enn öflugra dansleikhúsi á Íslandi.
 

Nú hafa Leikfélag Reykjavíkur og Íslenski dansflokkurinn stofnað sameiginlegt dansleikhús. Dansleikhúsið er eðlilegt framhald af samkeppninni, en framúrskarandi þátttakendum keppninnar gefst nú kostur að vinna áfram að sínum hugmyndum með hópi listafólks úr röðum Leikfélagsins og Dansflokksins.
Dansleikhúsið var stofnað í desember og voru tveir höfundar valdir til að leiða fyrsta verkefnið. Fyrir valinu urðu þau Marta Nordal leikkona og Peter Anderson, dansari og danshöfundur. Marta er sigurvegari dansleikhússamkeppninnar 2006  en Peter hefur átt verk í keppninni frá upphafi og hefur unnið til verðlauna.  Þá hefur hann samið verk fyrir Íslenska dansflokkinn, Reykjavík dansfestival og fleiri. Fjórir dansarar og fjórir leikarar taka þátt í verkefninu sem verður frumsýnt þann 7. júní, sama kvöld og danleikhússamkeppnin 2007 fer fram, en almennar sýningar á verkinu verða í haust.
Nú efna Leikfélagið og Íslenski dansflokkurinn til samkeppni um nafn á þetta nýstofnaða dansleikhús. Þeir sem hafa áhuga á að senda inn tillögur geta nálgast allar upplýsingar á heimasíðu Borgarleikhússins.