Hugleikur frumsýndi laugardaginn 8. mars í Tjarnarbíó, leikritið Undir hamrinum eftir Hildi Þórðardóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Leiklistarvefurinn átti mann á staðnum og hér má sjá hvað honum fannst. Hugleikur undir Hamrinum
Hugleikur frumsýndi í Tjarnarbíói í gær leikritið Undir hamrinum eftir Hildi Þórðardóttur. Þemað í verkinu er gamalkunnugt þegar Hugleikur er annars vegar. Íslenskt sveitalíf fyrr á tímum, kryddað ástum og örlögum sérstæðra persóna. Þetta er í annað sinn sem verk eftir Hildi fer á fjalirnar hjá Hugleik. Fyrir fjórum árum sýndi Hugleikur leikritið Völin, Kvölin og Mölin sem Hildur skrifaði ásamt V. Kára Heiðdal og Sigríði Láru Sigurjónsdóttur. Þar var ágætis verk á ferðinni sem gaf góð fyrirheit um framtíð höfundanna. Því miður verður að segjast að Undir hamrinum stendur ekki alveg undir væntingum. Til þess er of mörgu ábótavant í verkinu. Sagan er ekki ýkja frumleg né spennandi og framvindan á köflum hæg og jafnvel þyngslaleg. Ýmsar senur eru ágætlega skrifaðar en þær eru of fáar til að halda leikritinu uppi.
Að því sögðu skal þó tekið fram að sýningin er góð skemmtun og að sumu leyti slær Hugleikur þar nýjan og ferskan tón. Þar er ástæðan fyrst og fremst sá búningur sem sýningunni er búinn af leikstjóra og hönnuðum. Útlit sýningarinnar er áberandi fráhvarf frá hefðbundnum raunsæisstíl í útliti sem hefur nokkuð einkennt sýningar Hugleiks. Leikmyndin er eins einföld og orðið getur með þremur færanlegum flekum sem þungamiðju. Búningar eru skemmtilega óræðir og förðun leikara minnir fremur á frumbyggja Nýja-Sjálands en íslenskt alþýðufólk fyrr á tímum. Þetta útlit sýningarinnar ásamt efnistökum leikstjórans Ágústu Skúladóttur, nær að gefa verkinu líf sem tæplega hefði náðst að kveikja í hefðbundinni uppsetningu. Leikhópurinn hefur greinilega fengið að sleppa fram af sér beislinu undir öruggu auga leikstjórans og útkoman er óvenjuleg, frumleg og skemmtileg sýning. Leikarar standa sig flestir vel og sumir áttu frábæra spretti. Hápunkturinn fyrir mitt leyti var að sjá Baldur og Konna ganga aftur í síðasta atriði fyrir hlé. Svínslega fyndið og frumlegt atriði.
Leikurinn gerist að mestu á tveimur bæjum og var skipt á milli þeirra með áreynslulausum hætti með færslum á ofangreindum flekum. Oftsinnis hefur maður upplifað sýningar þar sem sviðsmenn paufast um í myrkrinu til að skipta á milli sena en hér voru skiptingar framkvæmdar af leikurunum sjálfum fyrir opnum tjöldum og gerðar að hluta sýningarinnar. Það er ekki oft sem hægt er að tala um stórleik í skiptingum en hann sýndi Hulda Hákonardóttir svo sannarlega. Ein af snilldarlegum hugmyndum sem framkölluðu hinn tæra leikhúsgaldur í sýningunni.
Að venju er tónlist áberandi í sýningunni og var hún vel útfærð og flutt eins og Hugleiks er von og vísa. Leikrænir söngvar gáfu sýningunni nýja vídd, ekki síst þegar þeir voru hluti af skiptingum. Einu sinni fannst mér tónlistaratriði þó ívið of langt og fannst það aðeins hægja á sýningunni. Að öðru leyti rann stórgóð tónlist þeirra Björns Thorarensen og Þorgeirs Tryggvasonar áreynslulaust saman við sýninguna.
Í leikskrá segir að Hugleikur eigi einn tryggasta áhorfendahóp landsins og er það vel. Mér segir þó svo hugur að hluti þess hóps verði fyrir vonbrigðum með þessa sýningu. Þeir sem koma til að sjá sama gamla Hugleik verða eflaust hissa. Von mín er sú að þeir hinir sömu átti sig á að leikfélag þarf að þroskast og þróast. Sífelld endurtekning er leiðin til stöðnunar og á endanum móðgun við sköpunina. Hugleikur sýnir ótvíræð þroskamerki með þessari sýningu og um leið og ég óska þeim til hamingju við ég bæta við þeirri hvatningu að félagið haldi óhrætt áfram að reyna nýjar leiðir í sköpuninni án þess þó að týna hinum Hugleikska anda.
Hörður Sigurðarson