Í fyrravetur gekk Hugleikur til samstarfs við Þjóðleikhúskjallarann og sýndi þar sjö sýningar undir nafninu Þetta mánaðarlega. Þar var um að ræða einþáttungasýningar, eitt klukkutímalangt óperuþykkni, eina klukkutíma leiksýningu, auk þess sem margar sýninganna voru kryddaðar með tónlist af ýmsu tagi. Verkefninu lauk síðan í maí með tónlistardagskrá þar sem rifjuð var upp tónlist úr ýmsum verkum Hugleiks. Ákveðið hefur verið að endurtaka leikinn með fimm til sex dagskrám í vetur, og var sú fyrsta í októberbyrjun.

Önnur dagskrá vetrarins verður sýnd í Þjóðleikhúskjallaranum sunnudaginn 5. nóvember og fimmtudaginn 9. nóvember.

einusinnivar2.pngEinu sinni var… heitir dagskráin að þessu sinni og er afrakstur námskeiðs sem Benedikt Erlingsson  og Charlotte Böving hafa kennt hjá Hugleik á síðustu vikum. Sýningin er spunnin úr gömlum örlagasögum sem þátttakendurnir tólf segja úr eigin umhverfi, og krydduð  með tónlist, ýmist fornum stefjum eða tónlist sem tengist sögunum sem sagðar eru.

Sýningar hefjast klukkan 20.00.

Miðaverð er kr. 1.000 og miðapantanir eru á www.hugleikur.is