Leikfélagið Hugleikur hefur staðið fyrir mánaðarlegum skemmtidagskrám í Þjóðleikhúskjallaranum í vetur undir yfirskriftinni Þetta mánaðarlega. Dagskrá marsmánaðar verður fimmtudag og sunnudag næstkomandi og hefst kl. 21, en húsið opnar kl. 20.30.
Hugleikur hefur undanfarin ár lagt áherslu á uppsetningu frumsaminna einþáttunga og dagskráin einkennist af því. Að þessu sinni verða sex einþáttungar fluttir á dagskránni, þar af fimm spánnýir. Þættirnir eru "Latexdrottningin" eftir Ármann Guðmundsson, "Leki" eftir Guðmund Erlingsson, "Í öruggum heimi" eftir Júlíu Hannam, "Kratavar" og "Hannyrðir" eftir Sigurð H. Pálsson og "Friðardúfan" eftir Unni Guttormsdóttur.
Þættirnir eru fjölbreyttir að efni, og velt er upp ýmsum spurningum: Er til eitthvað betra en að spila bridds heila helgi? Hvað gera karlmenn þegar þeir hittast án þess að kvenfólk sé nærri? Hvaða útivinna stendur miðaldra húsmæðrum til boða? Hvar er kúríbíska töluð? Eru friðardúfur farfuglar?
Höfundar og leikstjórar eru úr röðum félagsmanna, en Hugleikur hefur sem kunnugt er sérhæft sig í að sýna verk eftir innanfélagsmenn.
Almennt miðaverð er 1.000 kr. og miðapantanir eru í síma 551 2525 og á midasala@hugleikur.is.