Nýtt íslenskt leikrit, Spilaborgir, verður frumsýnt í húsnæði Hugleiks, Eyjarslóð 9, sunnudaginn 28. apríl. Hvað gerist þegar ungur kolbítur finnur tösku fulla af peningum ásamt absinthe-flösku og illa kveðnu ljóði? Um afleiðingarnar þess fjallar Spilaborgir. Höfundur er Ásta Gísladóttir, annar ritstjóra menningartímaritsins Spássíunnar. Hún hefur áður tekið þátt í leikritun fyrir Hugleik, en þreytir nú frumraun sína sem einsamall höfundur.

Finnandi töskunnar á í talsverðum vandræðum með að reikna út hvernig best er að vinna úr stöðunni. Þótt nágrannarnir, stúlkan sem hann er kannski skotinn í og ósýnilegir vinir séu allir af vilja gerðir þá vefst þetta þó nokkuð fyrir honum og tefur hann frá uppáhaldsiðjunni, að byggja spilaborgir. Fyrir vikið eru ævintýri drengsins kvöldstundarinnar virði.

Leikstjórar eru þeir Sigurður H. Pálsson og Þorgeir Tryggvason, báðir gamalgráir Hugleiksmenn. Leikhópurinn er hæfileg blanda nýgræðinga, reynslubolta og afreksfólks úr öðrum félögum.

Sex sýningar eru áformaðar, svo fólk er beðið að hafa hraðann á.