Epli og eikur er gamanleikur með söngvum sem Hugleikur frumsýnir í Möguleikhúsinu föstudaginn 23. mars. Höfundur er Þórunn Guðmundsdóttir og leikstjóri er Oddur Bjarni Þorkelsson.
Verkið fjallar um ástir og áhugamál nokkurra einstaklinga sem tengjast ýmsum böndum. Hin margslungnu samskipti persónanna þróast á fyndinn og blæbrigðaríkan hátt þar sem ýmsum brögðum er beitt við persónusköpun og allt litróf tungumálsins er lagt undir, eins og höfundi einum er lagið.
Þórunn Guðmundsdóttir, höfundur verksins, hefur doktorsgráðu í óperusöng og hefur um langt skeið starfað sem söngkennari, auk þess að vera afkastamikið leikskáld. Verk hennar í fullri lengd sem tekin hafa verið til sýninga hjá Hugleik eru: Kolrassa (2001) Kleinur (2004, röð einþáttunga) og Systur, sem sýnt var í fyrra. Auk þessa hefur félagið sýnt fjölda einþáttunga eftir hana. Þórunn hefur slegið eftirminnilega í gegn með verkum sínum og þykir jafnvíg á öllum vígstöðvum, hvort sem hún skrifar dramatík eða gamanverk, raunsæisverk eða ævintýri. Í sumum verka hennar, eins og þessu, semur hún tónlist og er þar einstaklega vel á heimavelli. Söngleikur hennar, Kolrassa, sem Hugleikur setti upp vorið 2001, fékk til dæmis fádæma aðsókn og mikið lof gagnrýnenda sem annarra áhorfenda.
Oddur Bjarni Þorkelsson leikstýrir verkinu. Hann hefur ekki leikstýrt áður hjá Hugleik, en hefur getið sér gott orð sem leikstjóri hjá leikhópum víða um land. Hann nam leikstjórn í leiklistarskóla Old Vic í Bristol og hefur starfað við leikstjórn óslitið síðan hann kom úr því námi. Hann hefur meðal annars unnið mikið með Leikfélagi Fljótsadshéraðs, Freyvangsleikhúsinu og Leikfélagi Húsavíkur auk þess sem hann er einn af stofnendum leikhópsins Kláusar og hefur leikstýrt með þeim verkunum Rita gengur menntaveginn eftir Willy Russell sem sýnt var á Húsavík haustið 2005 og Riðið inn í sólarlagið eftir breska höfundinn Önnu Reynolds sem var sýnt í Borgarleikhúsinu vor 2005. Hann leikstýrði einnig einleiknum Tenórínn sem sýndur var í Iðnó á árunum 2003-2004.
Leikfélagið Hugleikur hefur starfað óslitið í Reykjavík frá árinu 1983 og eru verk sem félagið hefur sett upp farin að nálgast hundrað talsins. Félagið setur eingöngu upp frumsamin verk eftir félagsmenn og hafa höfundar úr röðum Hugleiks einnig skrifað fyrir merkustu leiklistarstofnanir landsins, svo sem Sjónvarpið, Leikfélag Akureyrar og Þjóðleikhúsið auk fjölda áhugaleikfélaga.
Undanfarin ár hefur Hugleikur, auk uppsetninga lengri verka og námskeiðahalds fyrir félagsmenn, verið með mánaðarlegar dagskrár í Þjóðleikhúskjallaranum sem samsettar eru að mestu úr styttri leikþáttum.
Sýningar félagsins hafa jafnan verið vinsælar og vel sóttar og hefur félagið náð að stimpla sig inn og skapa sér sérstöðu í leikhúsflóru höfuðborgarsvæðisins. Gamansýningar hafa löngum þótt aðalsmerki Hugleiks þó svo að undanfarin ár hafi félagið verið að þreifa sig áfram með dramatískari verk inn á milli.
Hugleikur fékk viðurkenningu frá Menntamálaráðherra á degi íslenskrar tungu í nóvember síðastliðnum fyrir öflugt starf og frumlega notkun á tungumálinu. Hugleikur er fyrsta leiklistarstofnunin til að hljóta slíka viðurkenningu.
Einnig var nýlega undirritaður samstarfssamningur við Reykjavíkurborg um starfsemi félagsins á næstu árum en Hugleikur er fyrsta áhugaleikfélagið sem Reykjavíkurborg gerir slíkan samning við.