Síðustu aukasýningar hjá LA frá fyrra leikári.
Sem kunnugt er var gríðarleg aðsókn að sýningum LA á síðasta leikári. Aldrei hafa fleiri sótt sýningar leikhússins á Akureyri en til viðbótar sóttu þúsundir leikhúsgesta sýningar leikhússins í Reykjavík. Tvær sýningar voru á fjölum syðra í vor, Fullkomið Brúðkaup og Litla hryllingsbúðin. Til að mæta fjölda áskorana verða örfáar aukasýningar á verkunum nú í haust. Fullkomið brúðkaup verður sýnt í Austurbæ í ágúst en Litla hryllingsbúðin snýr aftur til Akureyrar í september.
Fullkomið brúðkaup er löngu orðin vinsælasta sýning LA frá upphafi. Hún sló öll aðsóknarmet á Akureyri og setti einnig sölumet þegar sala hófst á sýningar á stóra sviði Borgarleikhússins. Þegar sýningum lauk í lok júní var enn mikil eftirspurn eftir miðum. Til að mæta fjölda áskorana hafa nú verið settar inn örfáar aukasýningar á verkinu í Reykjavík. Sýningar verða nú í Austurbæ. Fyrsta sýningin verður laugardaginn 12. ágúst en sýnt verður í þrjár helgar. Edda Björg Eyjólfsdóttir tekur við hlutverki brúðarinnar af Esther Thalíu Casey en hún er ólétt og getur því ekki leikið í hinum ærslafulla gamanleik. Fullkomið brúðkaup er drepfyndinn og rómantískur gamanleikur um brúðkaupsdag sem fer á annan endann. Leikritið er eftir Robin Hawdon en leikstjóri er Magnús Geir Þórðarson. Leikarar eru Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Maríanna Clara Lúthersdóttir og Þráinn Karlsson.
Litla hryllingsbúðin var sýnd fyrir troðfullu húsi á Akureyri síðastliðinn vetur og komust færri að en vildu. Voru allt að sjö sýningum í viku en þrátt fyrir það komust færri að en vildu. Sýningin naut einnig mikilla vinsælda þegar hún var sýnd í Íslensku óperunni í maí og júní. Tekist hefur að bæta þremur sýningarhelgum við á Akureyri í byrjun september og eru þetta allra síðustu sýningar á verkinu en þá víkur sýningin fyrir nýjum uppsetningum LA. Fyrsta sýningin verður laugardagskvöldið 2. september en þegar er orðið uppselt á þá sýningu. Birna Hafstein og María Þórðardóttir taka við hlutverkum Esther Thalíu Casey og Ardísar Ólafar Víkingsdóttur. Sem fyrr segir er Esther ólétt en Ardís er að flytjast af landi brott í lok ágúst og geta þær því ekki tekið þátt í aukasýningum verksins. Litla hryllingsbúðin er sígildur rokksöngleikur, fullur af húmor og kraftmikilli tónlist. Söngleikurinn er eftir Howard Ashman en leikstjóri er Magnús Geir Þórðarson. Í aðalhlutverkum eru Guðjón Davíð Karlsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Andrea Gylfadóttir en hún hlaut Grímuna fyrir túlkun sína á plöntunni ógnvænlegu.
Miðasala á báðar sýningar er á midi.is en einnig er hægt að kaupa miða á Litlu hryllingsbúðina á www.leikfelag.is eða í miðasölu LA í síma 4 600 200.
Nýtt leikár verður kynnt í lok ágúst og hefst þá sala áskriftarkorta. Fjórar nýjar frumsýningar verða hjá LA á leikárinu auk gestasýninga og fjölda annarra fjölbreyttra viðburða.