Á fimmtudag heldur Leikfélag Kópavogs í víking til Litháen með sýninguna Hringinn. Félagið tekur þar þátt í Interampa leiklistarhátíðinni sem nú er haldin í 18. sinn. Auk Hringsins verða á hátíðinni sýningar frá Litháen, Hollandi, Armeníu, Rússlandi og Póllandi. Miðvikudag 17. okt. kl. 20.00 verður opið rennsli á Hringnum í Leikhúsinu í Kópavogi. Vinir og velunnarar eru velkomnir svo fremi sem þeir tilkynna komu í lk@kopleik.is.
Hringurinn var valinn Athyglisverðasta áhugaleiksýning síðasta leikárs og var í kjölfarið boðið að sýna í Þjóðleikhúsinu í júní síðastliðinn. Verkið er eftir Hrefnu Friðriksdóttur, leikstjóri er Hörður Sigurðarson, Sváfnir Sigurðarson leggur til tónlist og hljóðmynd og Skúli Rúnar Hilmarsson hannar lýsingu. Fjölmargir aðrir leggja hönd á í sýningunni og þar á meðal eru 12 leikarar. Guðmann Þór Bjargmundsson sér um myndvinnslu, Rúna Sif Harðardóttir um förðun og að auki koma fjölmargir að smíði leikmyndar og leikmuna.Evgenía lifir fábrotnu lífi og sinnir tilbreytingasnauðu starfi á opinberri stofnun. Dag einn knýja örlögin dyra í mynd rykfallins lögfræðings. Erindi hans er að greina frá fráfalli föðurins sem hún aldrei kynntist og koma til hennar arfi. Föðurarfur Evgeníu er sannarlega óvanalegur og líf hennar tekur í kjölfarið heljarstökk með tvöfaldri skrúfu – upp frá þessu verður ekkert venjulegt í tilveru Evgeníu. En hvað er annars venjulegt!?
Umsögn dómnefndar um sýninguna: Leikfélag Kópavogs sýnir skemmtilega dirfsku í verkefnavali sínu en Hringurinn eftir Hrefnu Friðriksdóttur er óvenjulegt og frumlegt nýtt íslenskt leikrit. Leikstjórinn Hörður Sigurðarson og leikhópur blása svo lífi í þann lítt hversdagslega heim sem höfundur dregur upp mynd af í verki sínu. Við hverfum inn í furðuheim sirkussins þar sem spurningamerki eru sett við ýmsar viðteknar hugmyndir okkar og leggjum ásamt aðalpersónunni í ferð í leit að leyndarmálum fortíðar. Í meðförum Leikfélags Kópavogs verður þessi ferð full af spennu og ógnum, en jafnframt hugljúf og nostalgísk, meðal annars fyrir tilstilli tónlistar og myndbandsbrota sem sýna sirkuslífið í fortíðinni. Hinn sjónræni þáttur sýningarinnar er vel unninn og hugvitssamlegur og leikarar standa sig með prýði.