Leiksýningin Horn á höfði hefur nú verið sýnd um 80 sinnum frá árinu 2009 á fjórum stöðum. Upphaflega byrjaði ævintýrið í 120 fermetra bakherbergi pítsastaðarins Mamma Mía í Grindavík. Sama leikár vann sýningin Grímuverðlaun sem besta barnasýningin og samdi í framhaldi við Borgarleikhúsið um að fara þar á fjalirnar haustið 2010. Í millitíðinni hélt leikhópurinn þó með sýninguna til Akureyrar þar sem hún var páskasýning LA 2010.

Eftir Borgarleikhúsævintýrið var leikmyndinni komið fyrir í geymslu í rúm þrjú ár.  Í september á síðasta ári var aftur farið af stað í Tjarnarbíó og líður nú undir lok þess sýningatímabils þar sem aðeins ein sýning er eftir – þann 16.mars.

Í ljósi þessarar sögu væri vel er hægt að kalla Horn á höfði eina víðförnustu barnasýningu landsins.  Ávallt hafa sömu leikarar verið í hlutverkum verksins þó þeir hafi elst töluvert og eignast nokkur börn á leiðinni sem alls eru orðin fimm hjá leikarateyminu frá upphafi sýninga. Óhætt er því að segja að  um frjóann leikhóp sé að ræða.    Vonumst við því eftir að sem flestir láti sjá sig á sunnudaginn því það síðasti séns að njóta leiksýningarinnar.

Ekki er þó öll von úti um að horfa og hlýða á dýrðina því nýlega var sýningin tekin upp í samstarfi við Stúdíó sýrland.  Aðdáendur hennar sem aðrir geta því von bráðar nálgast DVD disk með upptöku af henni þó það jafnist aldrei á við að fara á sýningu í leikhúsinu og upplifa töfrana!

Bergur Þór Ingólfsson leikstýrir sýningunni en hann skrifaði  verkið ásamt Brynjólfi Guðmundssyni. Tónlist er eftir Vilhelm Anton Jónsson/Villa Naglbít, leikmynd og búningar eru í höndum Evu Völu Guðjónsdóttur og Magnús Arnar Sigurðsson hannaði lýsingu.

Leikarar eru: Víðir Guðmundsson, Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólfur Gunnarsson.