Gríman – Íslensku leiklistarverðlaunin verða veitt í sjötta sinn við hátíðlega athöfn föstudaginn 13. júní á Stóra sviði Þjóðleikhússins og í beinni útsendingu í Sjónvarpinu. Útsendingin hefst kl. 20:55, strax að loknum leik Hollands og Frakklands á Evrópumótinu í knattspyrnu sem fram fer sama dag. Kosning er nú hafin til áhorfendaverðlauna Grímunnar 2008. Verðlaunin gefa leikhússgestum kost á að velja þá sýningu sem að þeirra mati er besta sýning ársins. Kosningin fer fram á netinu á vefsvæði Íslensku leiklistarverðlaunanna, www.griman.is . Allar sýningar leikársins 2007-8 koma til álita, en þær voru 80 talsins og hafa aldrei verið fleiri. Sú sýning sigrar sem hlýtur flest atkvæði í netkosningunni.
Kosningin stendur til föstudagsins 13. júní. Úrslitin verða kynnt í beinni útsendingu Sjónvarpsins, sigurvegari krýndur og fimm efstu sýningarnar kynntar. Öllum er heimil þátttaka en kjósendur lenda í lukkupotti og eru glæsileg verðlaun í boði. Þrír stálheppnir kjósendur hljóta árskort fyrir tvo í Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið og á sýningar Leikfélags Akureyrar og geta notið leiklistarinnar á næsta leikári.
Leikhússgestir hafa oft öðruvísi smekk en hin virðulega valnefnd Grímunnar og því verður spennandi að sjá hvaða sýning hlýtur áhorfendaverðlaunin. Vinsælar og skemmtilegar sýningar þurfa heldur ekki endilega að vera þær best heppnuðu á listrænum mælikvarða. Hér ráða áhorfendur ferðinni og geta sent skilaboð til leikhússtjóra leikhúsanna hvers konar sýningar þeir vilja helst sjá.
Fyrstu áhorfendaverðlaunin hlaut einleikurinn Sellofon í sviðssetningu Himnaríkis árið 2003. Áhorfendaverðlaunin 2004 hlaut söngleikurinn Chicago í sviðssetningu Íslenska dansflokksins og Leikfélags Reykjavíkur, árið 2005 hlaut söngleikurinn Óliver! í sviðssetningu Leikfélags Akureyrar verðlaunin og árið 2006 hlaut söngleikurinn Hafið Bláa í sviðssetningu Ísmedíu áhorfendaverðlaunin.