Æfingar eru hafnar af fullum krafti hjá Leikfélagi Selfoss í Litla leikhúsinu við Sigtún. Verkið sem um ræðir heitir Hnerrinn og er blanda sjö ótengdra leikþátta og leikgerðra smásagna eftir Anton Chekov. Meðal verkanna eru þekktir þættir á borð við Björninn og Bónorðið en einnig er þarna að finna leikþætti sem ekki hafa áður verið sýndir hérlendis og má þar m.a. nefna titilþáttinn Hnerrann sem sýningin dregur nafn sitt af.

Checkov er helst þekktur fyrir dramatísk verk eins og Mávinn en í stuttu leikþáttunum hans ræður gamansemin ríkjum. Leikgerð og þýðing úr rússnesku er eftir enska leikskáldið Michael Frayn.

Leikstjóri er Hörður Sigurðarson. Alls taka níu leikendur þátt í verkinu, en stefnt er að frumsýningu 19. janúar á nýju ári.