Vegna væntanlegar leikferðar Leikfélags Selfoss til Litháen í október, sýnir félagið tvær aukasýningar af gamanleiknum Hnerrinn eftir Anton Tsjekoff síðustu helgina í september. Hnerrinn er safn einþáttunga og smásagna og það er Hörður Sigurðarson sem leikstýrir verkinu. Hann þýddi einnig enska leikgerð Michaels Frayn og er þetta frumflutningur á þessari leikgerð hér á landi. Sýnt er í Litla leikhúsinu við Sigtún á Selfossi.

Hnerrinn er 66. verk Leikfélags Selfoss, en félagið hefur starfað óslitið frá árinu 1958 og hefur alla tíð verið einn af máttarstólpum menningarstarfsemi í sveitarfélaginu. Áhorfendur eiga í vændum skemmtilega kvöldstund með Tsjekoff, þar sem  þeir mæta uppáþrengjandi rithöfundum, sorgmæddum trúðum, þunglyndum ekkjum og fleiri furðukarakterum í sönnum rússneskum sagnaanda. 

Þeir sem misstu af þessari skemmtilegu sýningu ættu ekki að látta happ úr hendi sleppa. Þeir sem vilja sjá okkur aftur, endilega drífið ykkur. Og þeir sem eru ekki búnir að sjá okkur og vilja styrkja félagið til fararinnar og skemmta sér um leið ættu ekki að láta þetta tækifæri fram hjá sér fara.
Miðaverð kr. 2000

Sýningarnar verða föstudaginn 28. og laugardaginn 29. september kl. 20:30.
Miðapantanir í síma 482 2787.