Miðvikudaginn 13. febrúar kl. 20.30 mun uppistandsgengið Hjólastólasveitin ganga af göflunum í Gaflaraleikhúsinu. Tilgangur félagsins er að skemmta fólki með uppistandi víðs vegar, innan lands sem utan. Vekja athygli á málefnum hreyfihamlaðra og annarra fatlaðra í samfélaginu og efla heilsu allra landsmanna með hlátri. Hjólastólasveitina skipa þau Ágústa Skúladóttir, Ása Hildur Guðjónsdóttir, Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir, Guðríður Ólafsdóttir, Örn Sigurðsson, Elva Dögg Gunnarsdóttir og Leifur Leifsson.

Sveitin hefur komið fram vítt og breytt um landið. Flestar uppákomur hafa  verið teknar upp, með það að markmiði að safna efni í kynngimagnaða heimildarmynd um ferðir sveitarinnar og þau skrautlegu ævintýri sem hún lendir í, til dæmis þegar ekki er hægt að komast inní húsið, uppá sviðið, á salerni o.s.frv. vegna skorts á aðgengi. Myndin hefur fengið nafnið „Uppistandarinn sem stendur ekki upp og ferðir hans“!

Þeir sem koma fram að þessu sinni:
Tourette-drottningin Elva Dögg Gunnarsdóttir, sem varð önnur í keppninni Fyndnasti maður Íslands 2012 og fjallagarpurinn og „öryrkinn ósigrandi“ Leifur Leifsson, sem náði langt í sömu keppni 2011.

Gestauppistandari verður hinn óhemjulangi og Ljóti hálfviti Sævar Sigurgeirsson sem hefur aldrei verið fyndnasti neitt, en oft aðhlátursefni.

Kynnir kvöldsins er Ágústa Skúladóttir. 

Miðaverð 2000 kr.
Húsið opnar kl. 20.00.
Léttar veitingar seldar í anddyri.
Miðapantanir í síma 692-3630
Gaflaraleikhúsið, Strandgötu 50, Hafnarfirði